Neytendur

Óttast að fólk kaupi eitruð barna­föt fyrir jólin

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sunneva Halldórsdóttir heldur úti Instagram síðunni Efnasúpunni þar sem hún varar sérstaklega við fatakaupum á Temu og Shein.
Sunneva Halldórsdóttir heldur úti Instagram síðunni Efnasúpunni þar sem hún varar sérstaklega við fatakaupum á Temu og Shein. Vísir/Vilhelm

Kínverskir markaðsrisar líkt og Temu og Shein hika ekki við að selja föt sem í eru skaðleg efni. Mastersnemi í líf- og læknavísindum segir það sérstakt áhyggjuefni hvað varðar börn og segist neminn óttast að fólk versli jólagjafir á síðunum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í Bítinu á Bylgjunni. Sunneva Halldórsdóttir mastersnemi í líf- og læknavísindum heldur úti Instagram síðunni Efnasúpan þar sem hún varar við skaðlegum efnum í hinum ýmsu vörum. 

Eins og fram hefur komið hafa netverslanirnar Temu og Shein rutt sér til rúms undanfarna mánuði hér á landi. Sunneva segir börn sérstaklega viðkvæm fyrir þeim efnum sem leynist í fatnaði frá kínversku risunum. Efnin geti haft hormónaraskandi áhrif og truflað innkirtlastarfsemi.

Allt frá þalötum til þungmálma

„Þetta eru svona fyrirtæki sem hika ekkert við að nota ódýrustu og verstu efnin í vörurnar sínar. Þetta hefur verið mikið umfjöllunarefni síðustu mánuði sérstaklega þegar þessar netverslanir eru að stækka og fleiri og fleiri að versla þaðan. Þetta er sérstakt áhyggjuefni hvað varðar börn.“

Sunneva segir um að ræða allskonar efni í fatnaðinum og líka leikföngum frá risunum. Þar geti verið allt frá þalötum og yfir í þungamálma og allt þar á milli.

Hvað geta þau gert börnum?

„Við þurfum að hafa áhyggjur af þessum sérstaklega rokgjörnu lífrænu efnasamböndum sem geta haft áhrif á hormónakerfið okkar, haft hormónaraskandi áhrif. Þau líkja eftir hormónum og trufla innkirtlastarfsemi.“

Sunneva segir líkama barna í mótun og því sérstaklega viðkvæma. Hún tekur fram að hún sé ekki að segja að ein flík valdi meiriháttar skaða.

„En við þurfum að hafa þessi samanlögðu áhrif í huga og kannski að reyna að vanda valið, hvað við veljum. Ég hef áhyggjur af því núna fyrir jólin að fólk fari að versla jólagjafir fyrir börnin sín hvort sem það er fatnaður eða barnaleikföng úr lélegu plasti og svoleiðis á þessum síðum.“

Kláði, ofnæmi, útbrot

Sunneva hvetur fólk til að skoða innihaldsefni í fatnaði. Hvort um sé að ræða svokölluð gerviefni eða gerviefnablöndur. Gott sé að reyna að leita að lífrænum bómul og fatnaði sem sé sérstaklega vottaður. Þá getur slíkur fatnaður einnig haft áhrif á fullorðna, þó ekki á sama hátt og börn.

„Þetta getur að sjálfsögðu haft áhrif á fullorðna líka en við höfum meiri áhyggjur af börnunum af því það eru svo ofboðslega mörg viðkvæm stig og ferlar í gangi í þeirra líkama sem þessi efni geta auðveldlega raskað á einhvern hátt,“ segir Sunneva.

Hún segir einkenni sem fundist geta þegar fólk sé í eitruðum fatnaði séu ofnæmi, útbrot, kláði og óþægindi. Þá sé auk þess mikilvægt að velja gott þvottaefni, Svansvottað, vera ekki að þvo efnasúpu upp úr efnasúpu. Sunneva tekur fram að hún skilji vel að það sé aðlaðandi að versla ódýrt á Temu og Shein.

„Þú getur keypt allt þarna, bókstaflega allt. Ég skil þetta, þetta er ótrúlega freistandi en ef við ætlum að panta þarna, að reyna að vanda valið, hvað erum við að versla? Ekki panta barnaleikföng og barnafatnað, samfellur á ungabörn. Við getum ekki treyst þessu, þetta fylgir ekki ströngum reglum því þetta er ekki innan Evrópu.“


Tengdar fréttir

Temu kaupin getu hæglega orðið að fíkn

Sálfræðingur segir nýjar sölusíður líkt og Temu og Shein sem nýlega hafa rutt sér til rúms hér á landi hæglega geta orðið til þess að valda kaupfíkn. Síðurnar herji á notendur sem upplifi vellíðan við að versla sem mest á síðunum.

„Að fara í slag við þessa risa er nánast ómögulegt“

Umhverfisstofnun hefur lagt fram lista yfir vöruflokka sem stofnunin ráðleggur neytendum að forðast að versla á verslunarrisanum Temu. Í þeim geti leynst skaðleg efni sem ógni öryggi neytenda. Þar á meðal eru vörur fyrir börn, textílvörur og raftæki. Sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun segir stofnunina lítið geta gert. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×