Innlent

Kennir börnum að verjast stungu­á­rás án leyfis

Lovísa Arnardóttir skrifar
Myndirnar eru úr myndbandi þar sem maðurinn sviðsetur stunguárás með raunverulegum hnífi.
Myndirnar eru úr myndbandi þar sem maðurinn sviðsetur stunguárás með raunverulegum hnífi. Skjáskot/TikTok

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ræðir nú við mann sem hefur kennt börnum í Kópavogi að verjast hnífaárás og að nota kylfur og sverð. Maðurinn birti myndbönd af sjálfum sér í gær og í dag með kylfur og hnífa á leikvelli við ærslabelg við Gerðasafn í Kópavogi.

Heimir Ríkharðsson lögreglufulltrúi í Kópavogi segir lögregluna hafa fundið manninn og sé nú að ræða við hann.

Í myndböndunum sem maðurinn hefur deilt má sjá hann, og annan ungan mann, æfa það hvernig sé hægt að verjast stunguárás. Í öðru myndbandi má sjá unga drengi slást með priki og í einhverjum þeirra er hann einn með prik og merkir myndböndin með myllumerkjunum jiujitsu, training og annað slíkt.

Í íbúahópnum Kársnesið okkar á Facebook var fjallað um þessi atvik í morgun. Þar kom fram að fólk hefði miklar áhyggjur af bæði því sem maðurinn er að kenna börnunum og af því að hann beri bæði vopn og hafi meðferðis áfengi.

Hafa haft afskipti af manninum áður

Gunnar Hilmarsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni segir lögregluna áður hafa haft afskipti af manninum en ekki vegna þessa.

Hvað varðar börnin á myndböndunum segir Gunnar að lögreglan byrji á því að ræða við manninn en lögreglan muni reyna að vinna þetta með börnunum líka.

„Þetta má að sjálfsögðu ekki. Við munum tala við hann og gera honum grein fyrir því. Ég veit ekki alveg hvað er í gangi hjá honum,“ segir Gunnar.

Fréttastofa náði tali af manninum sem talar ekki íslensku og afar takmarkaða ensku. Hann óskaði eftir fyrirspurn í SMS sem hafði ekki verið svarað þegar þessi frétt fór í loftið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×