Fótbolti

„Kominn tími til að vinna leik í þessari deild“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fyrirliðinn Jóhann Berg átti góðan leik á miðjunni.
Fyrirliðinn Jóhann Berg átti góðan leik á miðjunni. Vísir/Hulda Margrét

„Bara mjög vel. Sagði við strákana að það væri kominn tími til að vinna leik í þessari deild,“ sagði fyrirliðinn Jóhann Berg Guðmundsson eftir sögulegan fyrsta sigur Íslands í Þjóðadeild karla í knattspyrnu.

Ísland vann Svartfjallaland 2-0 í fyrsta leik þjóðanna í Þjóðadeildinni þetta tímabilið. Jóhann Berg ræddi keppnina í viðtali við Stöð 2 og Vísi eftir leik sem og þá staðreynd að bæði mörk Íslands komu eftir hornspyrnur.

„Sagði líka við strákana að við þyrftum að bera virðingu fyrir þessari deild. Hún hefur gefið okkur tvo sénsa á að komast á stórmót og svo má segja að okkar tímabil byrjar núna.“

„Sölvi (Geir Ottesen, aðstoðarþjálfari) fór vel yfir veikleika þeirra og hvað við gætum nýtt okkur , sem við gerðum svo sannarlega,“ sagði fyrirliðinn um mörk kvöldsins.

„Hann fór vel yfir þetta, fór yfir hvar við gætum strítt þeim. Við höfum sagt að við viljum vera bestir í hornspyrnum, bæði sóknar- og varnarlega. Sýndum í dag að við erum sterkir þar. Svo spiluðum við flottan fótbolta líka, fórum svo langt þegar við þurftum að fara langt,“ bætti Jóhann Berg við.

Um leik kvöldsins og leikstíl Íslands almennt

„Komið plan hvernig við ætlum að spila, ákveðin taktík sem við erum að vinna með og þeir sem eru fyrir utan liðið vita nákvæmlega hvernig við viljum spila þegar þeir koma inn. Höfum sýnt það í undanförnum leikjum, hefur vantað að við tökum sénsinn en gerðum það klárlega í dag.“

„Við gerum allt til að vera klárir í seinni leikinn (gegn Tyrklandi á mánudag). Hefur verið vesen að ná mönnum ferskum því það er stutt á milli leikja. Þurfum að nýta hópinn í svona leikjum og munum gera það,“ sagði Jóhann Berg að endingu.

Klippa: Jóhann Berg eftir leikinn gegn Svartfjallalandi


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×