Handbolti

Ómar og Gísli heitir en Elvar og Arnar flugu inn í Evrópu­deildina

Sindri Sverrisson skrifar
Ómar Ingi Magnússon er byrjaður að raða inn mörkum á ný fyrir Magdeburg, eftir sumarfrí.
Ómar Ingi Magnússon er byrjaður að raða inn mörkum á ný fyrir Magdeburg, eftir sumarfrí. Getty/Marco Wolf

Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson röðuðu inn mörkum fyrir Magdeburg þegar þýsku meistararnir hófu titilvörn sína á því að vinna Wetzlar af öryggi, 35-28.

Ómar Ingi var markahæstur í leiknum með níu mörk, þar af fimm af vítalínunni og Gísli Þorgeir skoraði sex, fyrir framan 6.600 áhorfendur í GETEC Arena í Magdeburg.

Madgeburg var 18-16 yfir í hálfleik og hleypti Wetzlar svo aldrei nálægt sér í seinni hálfleiknum.

Elvar og Arnar útilokuðu norska silfurliðið

Elvar Örn Jónsson og Arnar Freyr Arnarsson spila í Evrópudeildinni í vetur, með þýska liðinu Melsungen, eftir að hafa slegið út norska liðið Elverum með sannfærandi hætti.

Melsungen var með fimm marka forskot fyrir leik liðanna í Noregi í dag en vann þar einnig fimm marka sigur, 36-31.

Þetta er í fyrsta sinn frá tímabilinu 2009-10 sem að Elverum kemst ekki inn í Evrópukeppni og liðið, sem endaði í 2. sæti í Noregi á síðustu leiktíð, hafði ekki tapað á heimavelli síðan í nóvember í fyrra.

Elvar og Arnar létu liðsfélagana um að skora mörkin í dag en Elvar skoraði þó eitt. Brasilíski línumaðurinn Rogério Moraes var markahæstur með sjö mörk.

Elín Jóna fagnaði með nýju liði

Landsliðsmarkvörðurinn Elín Jóna Þorsteinsdóttir fagnaði sigri í fyrsta leik með sínu nýja liði Aarhus United, í dönsku úrvalsdeildinni. Liðið vann Skanderborg, 26-24, eftir að hafa verið 12-10 yfir í hálfleik.

Elvar Ásgeirsson og markvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson urðu hins vegar að sætta sig við 33-29 tap með Ribe-Esbjerg gegn Álaborg í fyrstu umferð úrvalsdeildar karla í Danmörku. Elvar skoraði eitt mark í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×