Fótbolti

„Ég verð vonandi kominn í betra form“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gylfi í baráttunni í leik kvöldsins.
Gylfi í baráttunni í leik kvöldsins. Getty

Gylfi Þór Sigurðsson var að vonum svekktur eftir 3-1 tap Íslands fyrir Tyrklandi ytra í Þjóðadeild karla í fótbolta. Hann lítur þó á jákvæðu hliðarnar eftir fyrstu landsleiki sína í tæpt ár.

„Þetta er svekkjandi. Þeir eru bara mjög gott fótboltalið. Við auðvitað komum til baka að jafna í 1-1 og staðan þannig í hálfleik. En síðan skora þeir bara frábært mark sem kemur þeim í 2-1. Þeir eru marki yfir og við þurfum að reyna að taka sénsa undir lokin. Á móti svona liði er það alltaf hættulegt,“ segir Gylfi við Stefán Árna Pálsson eftir leik. Hann hrósar tyrkneska liðinu í hástert.

Klippa: Gylfi eftir leik í Izmir

„Þú sérð bara hvernig þeir spiluðu fótbolta í dag, frábærir leikmenn, góðir tæknilega og núna er að horfa á næsta mánuð. Tveir heimaleikir þar sem þarf að ná í sex stig,“ segir Gylfi.

Leikmenn Íslands hafi gert vel að brotna ekki við erfiðar aðstæður, hafandi lent snemma undir. Ísland jafnaði seint í fyrri hálfleik og staðan jöfn í hálfleik.

„Fyrstu tvær til þrjár mínúturnar voru ekki það sem við ætluðum okkur. Sérstaklega hérna úti í Tyrklandi. Það hefði getað verið auðvelt að brotna og þeir fengu nokkur hálffæri. Við stóðum þetta af okkur og komumst aftur inn í leikinn en heilt yfir er þetta sanngjörn úrslit,“ segir Gylfi.

Hann lítur þá heilt yfir vel á landsliðsgluggann sem er að baki. Aðspurður um hvernig það hafi verið að snúa aftur segir Gylfi:

„Bara geggjað, yndislegt. Ég verð vonandi kominn í betra form í næsta mánuði ef ég verð með þar. Það er bara margt jákvætt fyrir mig persónulega og fyrir hópinn að reyna að byggja ofan á þessa tvo leiki og taka þetta í næsta mánuði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×