Íslenski boltinn

Ó­rætt tíst Ísaks vekur at­hygli

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ísak Snær virðist ósáttur samræmi í lengd leikbanna ef litið er til banns fyrrum liðsfélaga hans fyrir tveimur árum síðan.
Ísak Snær virðist ósáttur samræmi í lengd leikbanna ef litið er til banns fyrrum liðsfélaga hans fyrir tveimur árum síðan. Vísir/Hulda Margrét

Ísak Snær Þorvaldsson, leikmaður Breiðabliks í Bestu deild karla, deildi færslu á samfélagsmiðlinum X sem hefur vakið athygli. Meining færslunnar er þó óljós.

Í morgun var Guðmundur Kristjánsson dæmdur í eins leiks bann fyrir að slá Böðvar Böðvarsson, leikmann FH, í leik liðanna í upphafi mánaðar. Böðvar slapp alfarið við bann en hann gaf Guðmundi olnbogaskot áður en Guðmundur svaraði með kjaftshöggi.

Dómari leiksins missti af atvikinu en aga- og úrskurðarnefnd tók það fyrir og studdist við myndbandsupptökur Stöðvar 2 Sport af atvikinu.

Einhverjir vildu lengra bann á Guðmund fyrir að slá Böðvar í andlitið með þessum hætti og aðrir vildu sjá Böðvar fara í bann fyrir olnbogaskotið. Það virðist sem Ísak Snær sé þar á meðal en hvað hann er nákvæmlega ósáttur við liggur ekki ljóst fyrir.

Í færslu sinni á X í dag birtir Ísak Snær skjáskot af frétt um Guðmund og Böðvar annars vegar, og skjáskot tveggja ára gamalli frétt um Omar Sowe, þáverandi liðsfélaga hans í Breiðabliki, hins vegar.

Sowe var dæmdur í tveggja leikja bann eftir samskonar skoðun aga- og úrskurðarnefndar á atviki sem dómari leiks missti af.

Sowe veitti þá Brynjari Hlöðverssyni, þáverandi leikmanni Leiknis, olnbogaskot í leik Leiknis og Blika í Bestu deildinni.

Ísak Snær setur við myndirnar tvær tvö spurningamerki auk tjákns. Yfir fjögur þúsund manns hafa séð færsluna og yfir hundrað lækað hana.

Ísak virðist því óánægður með misræmi í lengd banns Sowe og Guðmundar, eða það misræmi að Sowe hafi farið í tveggja leikja bann og Böðvar sloppið alfarið.

Ísak vildi ekki ræða málið við íþróttadeild Vísis þegar tal náðist af honum í dag og veitti ekki frekari skýringar á tísti dagsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×