Erlent

Hafnar frekari kapp­ræðum við Har­ris

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump þótti ekki standa sig vel í fyrstu kappræðum sínum við Harris á aðfararnótt miðvikudags. Nú lítur út fyrir að það verði einu kappræður þeirra.
Trump þótti ekki standa sig vel í fyrstu kappræðum sínum við Harris á aðfararnótt miðvikudags. Nú lítur út fyrir að það verði einu kappræður þeirra. AP/John Locher

Donald Trump ætlar ekki að mæta Kamölu Harris í fleiri sjónvarpskappræðum. Meirihluti í skoðanakönnunum taldi Harris hafa komið betur út úr fyrstu, og væntanlega einu, kappræðum þeirra Trump á aðfararnótt miðvikudags.

„ÞAÐ VERÐA ENGAR ÞRIÐJU KAPPRÆÐUR,“ básúnaði Trump á samfélagsmiðli sínum Truth Social í dag. Hann atti kappi við Joe Biden í örlagaríkum kappræðum fyrr í sumar.

Þref hefur staðið yfir milli framboðanna tveggja um frekari kappræður á öðrum sjónvarpsstöðvum og Harris sjálf hefur kallað eftir því. Eftir að Trump blés fleiri kappræður út af borðinu sagði Harris á fundi með stuðningsmönnum sínum að þau skulduðu kjósendum að leiða saman hesta sína aftur í sjónvarpssal.

Trump hélt því enn fram í færslu sinni í dag að skoðanakannanir sýndu að hann hefði unnið kappræðurnar örugglega. Þær skoðanakannanir sem hafa verið birtar benda þó flestar til þess að kjósendum hafi þótt Harris standa sig betur. 

Jafnvel bakhjarlar og ráðgjafar Trump sem Reuters-fréttastofan ræddi við eftir kappræðurnar töldu að Harris hefði staðið uppi sem sigurvegari vegna þess að Trump hefði farið um víðan völl í svörum sínum.


Tengdar fréttir

Trump vígreifur en veit betur

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, heldur því enn fram að hann hafi staðið sig frábærlega í kappræðunum gegn Kamölu Harris á aðfaranótt miðvikudags. Bandamenn hans segja þó, í einrúmi, að það sé ekki rétt og ítrekaðar yfirlýsingar Trumps um að hann hafi sigrað benda til þess að hann viti að hann hafi ekki staðið sig vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×