Bæði aðal- og varmarkvörður liðsins slitu krossband á sömu æfingunni. Eftir stendur óreyndur sautján ára markvörður sem eini markvörður félagsins sem er leikfær.
Markverðirnir óheppnu heita Joao Goncalves og Luís Pires og þeir verða báðir lengi frá keppni. ESPN segir frá.
Goncalves er aðalmarkvörðurinn sem spilaði alla 34 leikina á síðustu leiktíð. Hann spilaði einnig fjóra fyrstu leikina á þessu tímabili.
„Markverðirnir tveir fara báðir í aðgerð á næstu dögum og svo tekur við löng endurhæfing hjá leikmönnunum,“ sagði félagið í fréttatilkynningu.
Hinn sautján ára gamli Tomé Sousa stendur því í markinu þegar portúgalska deildin fer aftur af stað eftir landsleikjahlé.
Hann er uppalinn hjá félaginu en spilar sinn fyrsta meistaraflokksleik þegar Boavista mætir Estrela da Amadora á mánudaginn. Næsti leikur á eftir honum er síðan á móti stórliði Benfica.
Boavista er í þrettánda sæti portúgölsku deildarinnar með fjögur stig úr fjórum leikjum. Liðið hefur þó aðeins fengið á sig tvö mörk í þessum leikjum.