Bryndís Klara lést af sárum sínum eftir hnífstunguárás við Skúlagötu á Menningarnótt í ágúst. Foreldrar hennar hafa boðað þann boðskap að andlát hennar verði til þess að vopnaburður heyri sögunni til og kærleikurinn verði eina vopnið.
Þekkt tónlistarfólk spilar við útförina sem fylgjast má með í spilaranum sem birtist hér að neðan fyrir klukkan 15. Þá verður einnig hægt að horfa á hana í sjónvarpinu á Stöð 2 Vísi.
Sigríður Thorlacius syngur, Matthías Stefánsson spilar á fiðlu, Gunnar Gunnarsson spilar á orgel og karlakórinn Fóstbræður syngur.
Viðbrögð við árásinni hafa verið mikil í samfélaginu. Ríkisstjórnin hefur blásið í lúðra og kynnt 25 aðgerðir vegna ofbeldis meðal barna. Þá ræddi Halla Tómasdóttir forseti Íslands mikilvægi þess að snúa við þróuninni við setningu Alþingis á þriðjudag. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra gerði slíkt hið sama í stefnuræðu sinni.

Til að heiðra minningu Bryndísar Klöru hefur verið stofnaður minningarsjóður, tileinkaður þeim tilgangi að gera kærleikann að eina vopninu í okkar samfélagi. Sjóðurinn mun styðja við verkefni og aðgerðir sem stuðla beint að aukinni velferð og öryggi ungs fólks í íslensku samfélagi.
Framlag ykkar mun tryggja að arfleifð Bryndísar leiði til jákvæðra breytinga, hafi varanleg áhrif til góðs í samfélaginu og verði til þess að fórn Bryndísar megi þannig forða öðrum börnum og fjölskyldum þeirra frá viðlíka sorg og harmi.
Minningarsjóður Bryndísar Klöru
Kennitala: 430924-0600
Bankareikningur: 515-14-171717