Innlent

Skiptust á stríðs­föngum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Fagnaðarfundir voru þegar fangarnir snéru heim.
Fagnaðarfundir voru þegar fangarnir snéru heim. AP

Tvö hundruð og sex voru látnir lausir þegar Rússar og Úkraínumenn skiptust á stríðsföngum í dag. Einn sagðist finna fyrir miklum létti en nokkrir þeirra hafa verið í haldi síðan Rússar réðust inn í Úkraínu árið 2022.

Fangaskiptasamningar náðust fyrir milligöngu Sameinuðu arabísku furstadæmanna. 103 Rússar voru látnir lausir og jafnmargir Úkraínumenn. Umboðsmaður mannréttindamála í Úkraínu segir að meirihluti hinna frelsuðu Úkraínumanna hafi verið í haldi frá fyrstu dögum innrásarinnar.

Bjóst ekki við að komast heim

Samkvæmt frétt Reuters hefur Volódímír Selenskí, Úkraínuforseti, staðfest að skiptin hafi átt sér stað. Nokkrir úr herliði Rússa voru fluttir heim með rútu og sagðist einn þeirra finna fyrir gríðarlegum létti.

„Þetta er frábært. Ég bjóst ekki við að geta komist til baka. Allt er í besta lagi og ég er í góðu skapi. Ég trúi þessu varla. Tilfinningarnar eru sterkar. Allt er svo gott og frábært. Takk,“ segir einn þeirra.

„Ég fann strax fyrir miklum létti. Nú veit ég að ég kemst heim og allt er að baki. Nú kvíði ég engu,“ segir annar.

Á meðan Rússar sækja fram í austurhluta Úkraínu og reyna að ná tökum á öllu Donbas-svæðinu, hafa Úkraínumenn sótt fram í Kúrsk-héraði í Rússlandi. Hægt hefur á sóknum Rússa í Donbas en úkraínskir hermenn eru í mjög varhugaverðri stöðu þar, vegna yfirburða Rússa varðandi mannafla og skotfæri fyrir stórskotalið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×