Fótbolti

Stefán aftur á skotskónum og spennandi fallbarátta fram­undan

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Stefán hefur farið vel af stað í Noregi. Með þrjú mörk í sex deildarleikjum.
Stefán hefur farið vel af stað í Noregi. Með þrjú mörk í sex deildarleikjum. sandefjord

Þrír leikir fóru fram síðdegis í norsku úrvalsdeildinni og Íslendingar tóku þátt í þeim öllum. Stefán Ingi Sigurðarson var sá eini sem komst á blað þegar hann skoraði opnunarmarkið í 2-2 jafntefli Sandefjord og Brann.

Logi Tómasson var í vinstri bakverðinum hjá Strömsgodset í 0-0 jafntefli gegn Haugesund. Miðjumaðurinn Anton Logi Lúðvíksson kom inn af varamannabekknum hjá Haugesund á 83. mínútu.

Logi Tómasson spilaði allan leikinn í markalausu jafntefli. Strømsgodset Fotball

Sveinn Aron Guðjohnsen leiddi framlínu Sarpsborg í 0-2 tapi gegn Kristiansund. Sóknarmaðurinn Hilmir Rafn Mikaelsson kom inn af varamannabekk Kristiansund á 83. mínútu en tókst ekki að setja mark sitt á leikinn.

Sveinn Aron er nýgenginn til liðs við Sarpsborg og spilaði sinn annan leik í dag en komst ekki á blað. Hann lagði upp mark í fyrsta leiknum fyrir félagið. Sarpsborg 08

Stefán Ingi Sigurðarsson skoraði opnunarmarkið á 9. mínútu í leik Sandefjord og Brann. Heimamenn komust tvívegis yfir í leiknum en alltaf sneru gestirnir aftur, annað jöfnunarmarkið var skorað í uppbótartíma og liðin máttu sætta sig við eitt stig hvert.

Þetta var annað mark Stefáns í jafnmörgum leikjum og hans þriðja í sex leikjum sem hann hefur spilað síðan hann kom til félagsins í sumar.

Sandefjord er í 14. sæti eftir 22 umferðir. Í fallbaráttu, líkt og Haugesund og Stromsgödset sem sitja í sætunum fyrir ofan.

Pakkinn er mjög þéttur, átta umferðir eru eftir af tímabilinu og aðeins níu stigum munar milli neðsta liðsins í 16. sæti og liðsins í 7. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×