Fótbolti

Kristian Nökkvi metinn á tæp­lega tvo og hálfan milljarð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kristian Nökkvi í leik með Ajax.
Kristian Nökkvi í leik með Ajax. Getty Images/Raymond Smit

Kristian Nökkvi Hlynsson, miðjumaður hollenska stórveldisins Ajax, er þriðji verðmætasti leikmaður hollensku efstu deildar karla í fótbolta sem hefur ekki náð 21 árs aldri. Hann er metinn á tæplega tvo og hálfan milljarð íslenskra króna.

CIES Football Observatory er eins konar rannsóknarstofa sem notar tölfræðiupplýsingar til að meta leikmenn, lið og knattspyrnuþjóðir. Nú hefur „rannsóknarstofan“ verðlagt leikmenn sem eru undir 21 árs. Einn ber af en Kristian Nökkvi er í 3. sæti listans.

Hinn 18 ára gamli Jorrel Hato, samherji Kristians Nökkva, hjá Ajax er langefstur á listanum en hann er metinn á 45 milljónir evra eða 6,9 milljarða íslenskra króna. Um er að ræða örvfættan miðvörð sem hefur þegar spilað sinn fyrsta A-landsleik þrátt fyrir ungan aldur.

Hinn tvítugi Ruben van Bommel, sonur Mark van Bommel, er í öðru sæti listans. Vængmaðurinn er metinn á 200 þúsund evrum meira en Kristian Nökkvi sem er í þriðja sæti listans.

Hinn tvítugi Kristian Nökkvi kom inn í lið Ajax á síðustu leiktíð og var einn af fáum ljósum punktum á annars slöku tímabili. Hann á að baki tvo A-landsleiki fyrir Ísland og 28 yngri landsleiki.

Á eftir honum koma Ibrahim Osman, 19 ára vængmaður Feyenoord sem er á láni frá Brighton & Hove Albion, og Paxten Aaronson, 21 árs sóknarsinnaður miðjumaður sem er á láni frá Eintracht Frankfurt.

Kristian Nökkvi skoraði sigurmark Ajax í fyrsta deildarleik tímabilsins en liðið tapaði óvænt fyrir NAC Breda í næsta deildarleik þar sem Hato skoraði eina mark liðsins í 2-1 tapi. Vegna þátttöku sinnar í forkeppni Meistara- og Evrópudeildarinnar hefur liðið aðeins leikið tvo leiki á meðan önnur hafa leikið 4-5 leiki og því er Ajax í 15. sæti sem stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×