Erlent

Microsoft segir rúss­neskt tröllabú á bak við falsáróður um Harris

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Atvikið á að hafa átt sér stað árið 2011 og Harris að hafa ekið á 13 ára gamla stúlku.
Atvikið á að hafa átt sér stað árið 2011 og Harris að hafa ekið á 13 ára gamla stúlku. Getty/VCG

Rannsóknir Microsoft hafa leitt í ljós að „tröllabúið“ Storm-1516, rússneskur hópur tölvuþrjóta hliðhollur stjórnvöldum í Moskvu, sé að baki myndskeiði þar sem Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, er sökuð um að hafa ekið á stúlku og svo á brott.

Myndskeiðið fór í dreifingu á samfélagsmiðlum eftir að Harris varð forsetaefni Demókrataflokksins, í gegnum vefsíðu fyrir skáldaðan fjölmiðil í San Francisko, KBSF-TV.

Samkvæmt Microsoft er myndskeiðið til marks um aukinn þunga sem Rússar hafa lagt í að hafa áhrif á forsetakosningarnar vestanhafs en svo virðist sem það hafi tekið nokkurn tíma fyrir þrjótana að ná vopnum sínum á ný eftir að Biden steig til hliðar.

Greinendur Microsoft segja að seint í ágúst hafi umræddur hópur, Storm-1516, hins vegar farið að framleiða efni gegn Harris og varaforsetaefni hennar Tim Walz. Hópurinn er þekktur fyrir að framleiða myndskeið þar sem leikarar eru settir í hlutverk fréttamanna og/eða uppljóstrara.

Umrætt myndskeið hefur verið spilað 2,7 milljón sinnum.

Sendiráð Rússlands í Washington hefur ekki svarað fyrirspurn Reuters um málið en þess ber að geta að Harris er ötull stuðningsmaður Úkraínu í stríðinu við Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×