Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallups. Tæplega 24 prósent þeirra sem taka afstöðu segjast styðja ríkisstjórnina og hefur engin ríkisstjórn mælst minni frá upphafi mælinga fyrir þrjátíu árum.
Helsta breyting milli mælinga er að fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar um þrjú prósentustig, fylgi Miðflokks eykst um þrjú prósentustig og fylgi Vinstri grænna eykst um nær prósentustig. Liðlega 14 prósent þeirra sem taka afstöðu segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef kosið yrði til Alþingis í dag. Þetta er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með í Þjóðarpúlsi Gallup frá upphafi mælinga. Rösklega fjögur prósent segjast myndu kjósa Vinstri græn.

Þá segir að breytingin á fylgi annarra flokka milli mælinga sé 0,2 til 0,8 prósent og sé ekki tölfræðilega marktæk. Rúmlega 26 prósent kysu Samfylkinguna, ríflega 10 prósent kysu Viðreisn, tæplega átta prósent Pírata og Flokk fólksins. Þá segjast sex prósent myndu kjósa Framsókn og liðlega fimm prósent Sósíalistaflokkinn.
Ríflega sjö prósent segja að þeir myndu skila auðu eða ekki kjósa og þá taka fjórtán prósent ekki afstöðu eða vilja ekki gefa hana upp.
Um var að ræða netkönnun sem Gallup gerði 30. ágúst til 30. september. Heildarúrtakið var 11.138 og þátttökuhlutfallið 48,3 prósent.