Fótbolti

Ekki á­nægður með stöðu Hákons Rafns

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hákon Rafn Valdimarsson hefur spilað þrettán A-landsleiki.
Hákon Rafn Valdimarsson hefur spilað þrettán A-landsleiki. vísir/hulda margrét

Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, segir að Hákon Rafn Valdimarsson verði að spila meira með sínu félagsliði en hann hefur gert undanfarna mánuði.

Eftir frábært tímabil með Elfsborg 2023 gekk Hákon í raðir enska úrvalsdeildarliðsins Brentford í janúar á þessu ári.

Hákon hefur aðeins spilað tvo leiki fyrir aðallið Brentford síðan hann kom til liðsins, báða í enska deildabikarnum. Hákon var hetja Brentford í 1-0 sigri á Colchester United þar sem hann varði vítaspyrnu. Hann spilaði svo í 3-1 sigri á Leyton Orient um miðjan september.

Hareide segir að Hákon sé ekki í ákjósanlegri stöðu og vonast til að hann fari að spila meira.

„Ég er ekki ánægður með stöðuna. Hann spilaði gegn Leyton Orient og var mikið í boltanum en það reyndi lítið á hann,“ sagði Hareide á blaðamannafundi í dag.

Hinir markverðirnir í íslenska landsliðshópnum, Elías Rafn Ólafsson og Patrik Sigurður Gunnarsson, eru markverðir númer eitt hjá sínum liðum, Midtjylland og Kortirjk.

„Elías og Patrik eru að spila reglulega. Við verðum að sjá. Hákon er skynsamur. Hann skilur að hann er ekki að spila nóg. Hákon hefur gert ágætlega. Við þurfum að fylgjast vel með þessari stöðu fyrir undankeppni HM á næsta ári,“ sagði Hareide.

Hákon hefur verið aðalmarkvörður íslenska landsliðsins upp á síðkastið. Á fundinum var Hareide spurður hvort íhugaði að gera breytingu á markvarðastöðunni. 

„Nei, ég veit ekki. Við verðum að tala við hann. Við höfum þrjá mjög góða markverði,“ sagði Hareide.

Ísland mætir Wales og Tyrklandi í Þjóðadeildinni 11. og 14. október. Báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×