Innlent

Sló út við reglu­bundið við­hald

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá verksmiðju Norðuráls á Grundartanga.
Frá verksmiðju Norðuráls á Grundartanga.

Útsláttur á rafmagni á framleiðslusvæðinu varð við reglubundið viðhald hjá Norðuráli á Grundartanga sem varð til þess að rafmagnslaust varð á hálfu landinu. Ekki er lengur rafmagnslaust í verksmiðjunni.

Þetta segir Sólveig Kr. Bergmann framkvæmdastjóri samskipta og samfélagsmála hjá Norðuráli í samtali við Vísi. Eins og fram hefur komið er nú víðtækt rafmagnsleysi allt frá Vesturlandi, um Norðurland og austur á firði. Ástæðan er truflun á flutningskerfi Landsnets í kjölfar útleysingar hjá Norðuráli. Fólki á svæðinu er ráðlagt að slökkva á rafmagnstækjum. 

„Það stóð yfir reglubundin viðhaldsvinna hjá okkur sem varð til þess að það varð útsláttur á framleiðslusvæðinu, sem virðist svo hafa valdið þessu álagi á kerfið. Það er ekki lengur rafmagnslaust hjá okkur og við vonumst auðvitað til þess að það verði ekki heldur mikið lengur þannig annars staðar,“ segir Sólveig.

Hún segir útsláttinn ekki vera þannig að um einhverskonar slys hafi verið að ræða. Um sé að ræða reglubundið viðhald þar sem rafmagninu hafi slegið út hjá Norðuráli og svo á stærra svæði.

„Við erum bara það stór notandi að þetta virðist valda þessu og Landsnet verður að skýra það hvað það er sem veldur því,“ útskýrir Sólveig.


Tengdar fréttir

Ráðlegt að slökkva á rafmagnstækjum

Íbúum þar sem nú er rafmagnslaust er ráðlagt að slökkva á þeim rafmagnstækjum sem ekki slökkva á sér sjálf og valdið geta tjóni þegar rafmagn kemur á að nýju. Þetta kemur fram í tilkynningu frá RARIK en þar kemur einnig fram að heimilistæki hafi sumstaðar eyðilagst við höggið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×