Upp­gjörið: Stjarnan - Kefla­vík 71-64 | Baráttuglaðar Stjörnustúlkur lögðu Íslandsmeistarana

Siggeir Ævarsson skrifar
Denia Davis-Stewart reif niður 20 fráköst í kvöld og skoraði 17 stig
Denia Davis-Stewart reif niður 20 fráköst í kvöld og skoraði 17 stig Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Íslandsmeistarar Keflavíkur mættu i heimsókn í Garðabæinn í kvöld með nokkuð laskað lið, en Birna Benónýsdóttir, Sara Rún Hinriksdóttir og Emilia Ósk Gunnarsdóttir eru allar meiddar og munar þar heldur betur um minna.

Fjarvera þeirra virtist þó ekki há gestunum neitt í upphafi sem keyrðu hratt á Stjörnuna og leiddu 13-26 eftir fyrsta leikhluta þar sem Jasmine Dickey fór mikinn og skoraði helming stiga Keflavíkur.

Aðalsmerki Stjörnunnar í fyrra var að gefast aldrei upp fyrr en í fulla hnefana og þar virðist ekkert hafa breyst. Þær þéttu vörnina og snéru leiknum algjörlega við í 2. leikhluta en jafnt var á öllum tölum í hálfleik, 35-35.

Hin svokölluðu orkuskipti hafa verið mikið í fréttum undanfarið en þau virðast hafa farið fram í leik kvöldsins. Eftir sterka byrjun hjá gestunum, hátt orkustig og stífa vörn, varð algjör umpólun í leiknum. Stjarnan gekk algjörlega á lagið eftir góðan 2. leikhluta og voru fljótlega komnar tólf stigum yfir í 3. leikhluta.

Sóknarleikur Keflavíkur treysti að miklu leyti á einstaklingsframtak Dickey og þegar hægðist á henni hægðist á öllum þeirra sóknaraðgerðum. Stjarnan leiddi með tíu stigum fyrir lokaátökin. Það var brekka sem Íslandsmeistarar Keflvíkingar náðu einfaldlega ekki að spóla sig upp úr þrátt fyrir mjög heiðarlega tilraun undir lokin. 

Sanngjarn baráttusigur heimakvenna staðreynd. Lokatölur í Garðabænum 71-64. Nánari umfjöllun og viðtöl á Vísi síðar í kvöld

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira