Innlent

Hand­tekinn eftir hliðarkeyrslu á tals­verðum hraða

Jón Þór Stefánsson skrifar
Lögreglan hafði í nógu að snúast í nótt.
Lögreglan hafði í nógu að snúast í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan var kölluð til vegna umferðarslyss á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi. Einum bíl hafði verið ekið í hlið annars bíls á talsverðum hraða, en einn var talinn slasaður á vettvangi.

Ökumaður annars bílsins var handtekinn grunaður um akstur undi áhrifum áfengis, og var sviptur ökuréttindum. Áreksturinn átti sér stað í umdæmi lögreglustöðvar fjögur, sem sér um löggæslu í Grafarvogi, Grafarholti, Mosfellsbæ og Árbæ.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Í henni segir að það hafi verið mikið að gera hjá lögreglunni í gærkvöld og nótt. Átta hafi gist fangageymslu og 111 mál bókuð í kerfum lögreglu.

Tilkynnt var um slagsmál á veitingastað í miðbænum. Einn var handtekinn á vettvangi grunaður um líkamsárás.

Þá hafði lögregla eftirlit með veitinga- og skemmistöðum í miðbænum. Fram kemur að skrifa þurfti nokkrar skýrslur vegna réttindaleysis dyravarða eða ungmenna inni á skemmtistöðum. Nokkrir staðir megi eiga von á sektum vegna þess.

Þá hafði lögregla afskipti af ökumanni sem reyndi að hlaupa undan henni. Í dagbókinni segir að hann hafi komist mjög skammt áður en hann var hlaupinn uppi og handtekinn.

Þá var lögregla kölluð til vegna einstaklings sem gat ekki greitt fyrir leigubíl og neitaði svo að segja til nafns við afskipti lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×