Innlent

Af­gerandi meiri­hluti með mál­stað Palestínu­manna

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá mótmælum stuðningsfólks Palestínumanna við Alþingishúsið í sumar.
Frá mótmælum stuðningsfólks Palestínumanna við Alþingishúsið í sumar. Vísir/Einar

Tæplega þrír af hverjum fjórum sögðust hafa meiri samúð með málstað Palestínumanna en Ísraela í skoðanakönnun sem stuðningsfélag Palestínu lét gera í síðasta mánuði. Þá sagðist meirihluti fylgjandi því að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael.

Tíu prósent sögðust hafa meiri samúð með Ísrael í skoðanakönnuninni sem Maskína gerði fyrir Félagið Ísland-Palestína. Tæpur fimmtungur sagðist hafa jafnmikla samúð með báðum.

Spurt var út í hvort að Ísland ætti að beita Ísrael viðskiptaþvingunum á grundvelli álits Alþjóðadómstólsins í sumar um að áratugalangt hernám Ísraels í Palestínu væri ólöglegt. Þar sögðust 61 prósent fylgjandi viðskiptaþvingunum og sextán prósent hlynnt „með fyrirvara“. Tæpur fjórðungur sagðist andvígur.

Þá sögðust 54 prósent hlynnt því að Ísland sliti stjórnmálasambandi við Ísrael og sextán prósent hlynnt með fyrirvara. Tæpur þriðjungur sagðist andsnúinn því að slíta sambandinu.

Könnunin var gerð um miðjan september. Ekki var spurt sérstaklega út í hernað Ísraelshers á Gasaströndinni sem staðið hefur samfellt síðasta árið. Þær aðgerðir hófust í kjölfar mannskæðustu árásar vígamanna Hamas-samtakanna á Ísrael í sögu landsins fyrir réttu ári, 7. október.

Um 1.200 Ísraelar féllu í árásinni, flestir þeirra óbreyttir borgarar. Þá tóku Hamas-liðar hundruð gísla en tugir þeirra eru enn í haldi samtakanna. Rúmlega 41.000 Palestínumenn hafa síðan fallið í hernaðaraðgerðum Ísraela gegn Hamas á Gasa sem hafa ennfremur hrakið á þriðju milljón íbúa þar á flótta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×