Íslenski boltinn

Svona mark sést bara á nokkurra ára fresti: „Al­gjör­lega ein­stakt“

Aron Guðmundsson skrifar
Emil Atlason er kominn með þrettán mörk í Bestu deildinni á yfirstandandi tímabili. Markið sem hann skoraði á móti Víkingi Reykjavík í síðustu umferð er það glæsilegasta til þessa. 
Emil Atlason er kominn með þrettán mörk í Bestu deildinni á yfirstandandi tímabili. Markið sem hann skoraði á móti Víkingi Reykjavík í síðustu umferð er það glæsilegasta til þessa.  Vísir/Anton Brink

Í Stúkunni, upp­gjörs­þætti Bestu deildar karla í fót­bolta í gær­kvöldi, var glæsi­mark Emils Atla­sonar, fram­herja Stjörnunnar, fyrir aftan miðju gegn Víkingi Reykja­vík tekið fyrir og var Atli Viðar Björns­son, einn af sér­fræðingum þáttarins, klár á því að markið væri lang­besta mark sumarsins sem og síðustu þriggja til fimm ára í efstu deild.

Víkingur Reykja­vík og Stjarnan mættust í þýðingar­miklum leik fyrir bæði lið í þriðju um­ferð úr­slita­keppni efri hluta Bestu deildar karla á sunnu­daginn í leik sem endaði með 2-2 jafn­tefli en öll mörk leiksins komu á síðasta stundar­fjórðungi hans.

Glæsi­mark Emils Atla­sonar var fyrst í röðinni og var af dýrari gerðinni því það kom eftir hnit­miðaða og yfir­vegaða spyrnu Emils fyrir aftan miðju. Mark sem verður lengi í minnum haft og má sjá hér fyrir neðan.

„Mér finnst þetta al­gjört yfir­burðar mark af þeim sem við höfum séð í sumar,“ sagði marka­hrókurinn Atli Viðar Björns­son, einn af sér­fræðingum Stúkunnar um mark Emils. „Það eru svo ó­trú­lega mikil gæði í þessu. Þetta er svo með­vitað og það að geta fram­kvæmt þetta svona. Full­komin spyrna. 

Fyrir mér er þetta lang­besta mark sumarsins og ég myndi fara ein­hver ár aftur í tímann og segja að þetta sé besta mark efstu deildar sem ég hef séð síðustu þrjú til fimm árin. Þetta sjáum við bara á margra ára fresti. Fyrir mér er þetta mark al­gjör­lega ein­stakt.“

Klippa: Mark Emils fyrir aftan miðju „langbesta mark sumarsins“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×