Innlent

Þurfi ekki skarp­skyggni til að sjá krísuástandið

Jón Þór Stefánsson skrifar
Að mati Eiríks eru margar mögulegar ástæður fyrir fundi þingflokks Sjálfstæðisflokksins.
Að mati Eiríks eru margar mögulegar ástæður fyrir fundi þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Arnar

„Það er krísuástand á stjórnarheimilinu. Það blasir við okkur. Það þarf ekki mikla skarpskyggni til að sjá það,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, í samtali við fréttastofu.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins var boðaður á fund í Valhöll með skömmum fyrirvara nú síðdegis. Að sögn Eiríks liggur ekki fyrir hvað verður eða hver ætlunin með fundinum sé.

„Það liggur ekki ljóst fyrir enn þá. En það eru auðvitað nokkrir möguleikar. Það gæti verið að flokkurinn treysti sér ekki lengur til að vera í þessu stjórnarsamstarfi. Formaðurinn gæti hugað að brotthvarfi. Eða þá að það sé einfaldlega verið að lægja öldurnar með þá fyrirætlun að halda þessu gangandi.“

Í dag sagði formaður Vinstri grænna að ríkisstjórnin væri í vanda stödd og formaður Framsóknarflokksins sagði samskipti milli stjórnarflokkanna vera orðin stirð. Eiríkur man ekki til þess að höfuð flokkanna hafi talað með þessum hætti í þessu samstarfi.

„Frá og með landsfundi Vinstri grænna, og jafnvel fyrr, er stjórnarsamstarfinu efnislega lokið í þeirri merkingu að ríkisstjórnin reyni að ná saman um stór mál og sameinist um að koma þeim í gegnum Alþingi. Það er hlutverk ríkisstjórna og því er lokið í þessari ríkisstjórnar.“

Hann segir að „de facto“ sé eiginleg starfsstjórn tekin við taumunum. 

Það þurfi í sjálfu sér ekki að skapa neitt neyðarástand þar sem hver flokkur stjórni sínum málaflokkum fram að kosningum. Slík staða hafi komið fram áður og jafnvel töluvert áður en þing er rofið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×