Körfubolti

Frá­bær sigur Tryggva og fé­laga gegn stórliði Real

Smári Jökull Jónsson skrifar
Tryggvi Snær í leik með Bilbao á síðustu leiktíð
Tryggvi Snær í leik með Bilbao á síðustu leiktíð Vísir/Getty

Tryggvi Snær Hlinason lék í tæpar tuttugu mínútur með liði Bilbao sem vann góðan sigur á Real Madrid í spænsku ACB-deildinni í körfuknattleik í dag.

Tryggvi Snær og Bilbao voru með tvö stig eftir tvo leiki í spænsku deildinni líkt og lið Real Madrid. Leikurinn fór fram á heimavelli Bilbao en lið Real Madrid er ríkjandi meistari á Spáni.

Heimamenn í Bilbao tóku frumkvæðið í byrjun og leiddu 22-18 eftir fyrsta leikhluta. Þeir bættu í forystuna í öðrum leikhluta, náðu mest tólf stiga forskoti og leiddu 46-34 í hálfleik.

Lið Real náði vopnum sínum í þriðja leikhluta. Bilbao byrjaði leikhlutann reyndar á að auka muninn í fimmtán stig en Real náði svo áhlaupi og fyrir lokafjórðunginn munaði aðeins einu stigi, staðan þá 60-59.

Fjórði leikhlutinn var æsispennandi. Í stöðunni 67-64 fyrir heimamenn skoraði lið Bilbao fimm stig í röð og jók muninn upp í átta stig en Real svaraði og þegar rúm mínúta var eftir var staðan 78-77.  Heimamenn voru hins vegar sterkir á vítalínunni undir lokin og tryggðu sér 83-79 sigur.

Tryggvi lék í rúmar sextán mínútur í leiknum og var með bestu plús og mínus tölfræði liðsins en Bilbao vann þær mínútur sem Tryggvi var inná vellinum með fimmtán stigum. Hann skoraði þrjú stig, tók þrjú fráköst og gaf tvær stoðsendingar þar að auki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×