„Við í Samfylkingunni viljum kosningar sem fyrst og við styðjum það að þing verði rofið. En það skiptir mái hvernig hlutirnir eru gerðir og við þurfum að flýta okkur hægt í þessari stöðu,“ sagði Kristrún eftir fund sinn með forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur, í dag.
Hún sagði Bjarna Benediktsson forsætisráðherra ekki hafa beðist lausnar fyrir sig og sína ríkisstjórn og það þurfi að ræða hvort það sé skynsamlegra að setja á starfsstjórn við þessar aðstæður.
Hún segist hafa gert forseta grein fyrir þessari skoðun sinni en að það þurfi að ræða þetta. Hún segir þetta tækifæri skipta máli fyrir þjóðina.
Hún segir Samfylkinguna vinna að því að koma sínum áherslum á framfæri og hún og Bjarni munu takast á næstu vikurnar. Hún hlakki til þess.
Kristrún fyrst
Kristrún fór fyrst formanna á fund forsetans í dag. Á eftir henni kom svo Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins.
Næst fer svo Inga Sæland formaður Flokks fólksins á fund forsetans klukkan 16. Eftir það kemur Þórhildur Sunna Ævarsdóttir í Pírötum og svo formenn stjórnarflokkanna. Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins kemur á fund forsetans klukkan 17.30 og Svandís Svavarsdóttir formaður VG klukkan 18:15.