Erlent

Sagður ekki munu ráðast gegn olíu- né kjarnorkuinnviðum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Netanyahu er sagður hafa mildast í afstöðu sinni til refsiaðgerða gegn Íran.
Netanyahu er sagður hafa mildast í afstöðu sinni til refsiaðgerða gegn Íran. AP/Pamela Smith

Heimildarmenn Washington Post innan bandaríska stjórnkerfisins segja Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, hafa greint Joe Biden Bandaríkjaforseta frá því í samtali þeirra á dögunum að hann hefði í hyggju að ráðast gegn hernaðarskotmörkum í Íran til að hefna fyrir árásir Írana á Ísrael.

Samtal leiðtoganna er sagt hafa bent til þess að afstaða Netanyahu til fyrirhugaðra refsiaðgerða gegn Íran hafi mildast og hann hafi ekki lengur í hyggju að ráðast gegn olíu- eða kjarnorkuinnviðum.

Biden hafði áður sagt að Bandaríkin myndu ekki styðja árás á kjarnorkuinnviði Íran og er sagður hafa tekið ákvörðunina um að senda Ísraelum THAAD loftvarnakerfi eftir samtalið við Netanyahu en breytt afstaða síðarnefnda er sögð hafa verið nokkur léttir fyrir stjórnvöld í Washington.

Áhyggjur voru uppi um áhrif árása á olíuinnviði Íran á olíuverð í heiminum og þá hefði árás á kjarnorkuinnviði að öllum líkindum orðið forleikur að allsherjarstríði á svæðinu.

Samkvæmt heimildarmönnum Washington Post mun Ísrael ráðast í aðgerðir gegn Íran áður en gengið verður til kosninga vestanhafs 5. nóvember næstkomandi. Haft er eftir Zohar Palti, fyrrverandi yfirmanni hjá Mossad, að Netanyahu þurfi að taka  tillit til bæði krafa Bandaríkjamanna um hófsöm viðbrögð og kröfum heima fyrir um afdráttarlaust svar við árás Íran.

„Íranir hafa tapað allri þeirri sjálfstjórn sem þeir sýndu,“ segir Palti. „Ísrael getur ekki barist án vopna frá Bandaríkjunum. En það er Ísrael sem er að taka áhættuna og veit hvernig á að ganga í verkið.“

Hér má finna ítarlega umfjöllun Washington Post.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×