Þetta er meðal þess sem kemur fram í samantekt um nýja mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fyrir október. Þar segir einnig að kaupsamningum hafi fækkað en fjöldi þeirra sé nálægt sögulegu meðaltali.
„Yfir 20% íbúða sem eru ekki í nýbyggingum á höfuðborgarsvæðinu seljast á yfirverði, og er það hlutfall áþekkt því sem var á seinni hluta áranna 2017 og 2020, þegar mikill eftirspurnarþrýstingur var á húsnæðismarkaði,“ segir í samantektinni.
Þá segir að leigumarkaðurinn leiti aukins jafnvægis í kjölfar mikilla verðhækkana en vísitala leiguverðs hafi nú lækkað tvo mánuði í röð. Virkum leitendum á hvern leigusamning virðist hafa fækkað eitthvað.
Hlutfall vaxtagreiðslna af ráðstöfunartekjum fólks fer hækkandi en heimilin greiddu að jafnaði 5,7 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í vaxtagjöld í fyrra, sem er hæsta hlutfallið frá 2016.
„Hækkandi vaxtabyrði kemur illa niður á einstaklingum með íbúðalán. Þó er mikill munur eftir fjölskyldustöðu en verst kemur hækkandi greiðslubyrði niður á barnafjölskyldum. Þó er veðsetningarhlutfall heimila í sögulegu lágmarki en miklar hækkanir á fasteignaverði síðustu ára hafa fært heimilum landsins aukið veðrými.“
Um byggingamarkaðinn segir meðal annars að aðeins fimm af fjórtán sveitarfélögum sem áætluðu mestu íbúðafjölgunina hafi náð að byggja í takt við áætlaða þörf í fyrra; Garðabær, Hafnarfjörður, Árborg, Ölfus og Akraneskaupstaður.