Tilkynnt var um eldsvoða á Stuðlum klukkan 6:40 í gærmorgun. Þær upplýsingar fengust frá lögreglu og slökkviliði að vel hefði gengið að slökkva eldinn og tveir hefðu verið fluttir á slysadeild, vistmaður og starfsmaður. Engar upplýsingar fengust um líðan þeirra. Forsvarsmenn Stuðla og Barna- og fjölskyldustofu, sem rekur meðferðarheimilið, vörðust allra fregna. Rétt fyrir klukkan sex í gær barst svo yfirlýsing frá Stuðlum, þar sem greint var frá því að barn hefði látist í eldsvoðanum.
Elín Agnes Kristínardóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild segir í samtali við fréttastofu nú í morgun að rannsókn sé í fullum gangi. Hún segist ekki geta svarað neinu um eldsupptök.
Er grunur um íkveikju?
„Á meðan þetta er enn til skoðunar, og þetta er hrikalega viðkvæmt mál, þá förum við ekki í neinar fabúleringar,“ segir Elín Agnes. Enginn hafi verið handtekinn eða hafi stöðu sakbornings að svo stöddu.
Starfsmaðurinn ekki í lífshættu
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu kom eldurinn upp í neyðarvistunarálmu Stuðla. Elín Agnes staðfestir að pilturinn hafi ekki verið búinn að vera lengi á Stuðlum. Starfsmaður sem fluttur var með reykeitrun á bráðamóttöku sé ekki í lífshættu.
Ekki sé ljóst hversu mörg vitni hafi verið að atvikinu. „Við verðum að taka með inn í myndina að þarna er verið að fást við hóp ungmenna sem er í áfalli, og starfsmenn líka,“ segir Elín Agnes.
Funi Sigurðsson framkvæmdastjóri Barna- og fjölskyldustofu baðst undan viðtali þegar fréttastofa náði tali af honum í morgun. Í dag verði reynt að taka utan um starfshópinn og fundið út úr því hvar eigi að hýsa börn. Fram kom í fréttum í gær að gert hafi verið samkomulag við SÁÁ um tímabundin afnot af húsnæði á Vogi til að bregðast við stöðunni sem komin er upp á Stuðlum.