Guðmundur Guðmundsson stýrði liði Fredericia til síns fyrsta sigurs í Meistaradeildinni í vetur og í sögu félagsins þegar liðið vann þriggja marka sigur á pólska félaginu Wisla Plock, 28-25.
Fredericia hafði tapað fimm fyrstu Meistaradeildarleikjum tímabilsins. Liðið er hins vegar komið á gott skrið eftir krefjandi byrjun á leiktíðinni.
Einar Þorsteinn Ólafsson og Arnór Viðarsson komust ekki á blað hjá Fredericia en Viktor Gísli Hallgrímsson stóð í marki Wisla Plock. Viktor varði níu skot í leiknum eða 25 prósent skota sem á hann komu. Einar var tvisvar rekinn útaf í tvær mínútur.
Orri Freyr Þorkelsson skoraði sex mörk fyrir Sporting og var markahæstur í liðinu en það dugði ekki til sigur á móti Hauki Þrastarsyni og félögum í Dinamo Búkarest. Dinamo vann leikinn með fjórum mörkum, 33-29, eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í hálfleik, 13-15.
Haukur skoraði fmm mörk í leiknum og gaf líka þrjár stoðsendingar. Dinamo vann þrjá fyrstu leiki sína í Meistaradeildinni en hafði síðan tapað tveimur leikjum í röð. Þeir enduðu hins vegar taphrinuna með góðum sigri.
Þetta var fyrsta tap Sporting í Meistaradeildinni í vetur en liðið hafði fyrir leikinn náði í níu stig af tíu mögulegum. Orri Freyr nýtti 6 af 9 skotum sínum en hann klikkaði á tveimur vítaskotum í leiknum.