Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi fundaði í kvöld og afgreiddi heildarlista fyrir komandi alþingiskosningar.
Til viðbótar við þau fjögur sæti sem raðað var í síðastliðinn sunnudag var skipað í 5. - 28. sæti. Jón Gunnarsson alþingismaður og fyrrverandi dómsmálaráðherra skipar 5. sæti listans. Árni Helgason lögmaður skipar 6. sæti listans, Ragnhildur Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar á Seltjarnarnesi skipar 7. sætið og Viktor Pétur Finnsson formaður SUS og háskólanemi skipar 8. sætið.
Óli Björn Kárason alþingismaður og fyrrverandi formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins skipar heiðurssæti listans.
Jón sáttur og bjartsýnn
Jón segist stefna á áframhaldandi þingsetu. Þetta gæti orðið baráttusæti en hann sé til í það. Hann segist hafa ákveðið að þiggja að skipa 5. sætið á listanum eftir nokkurra daga umhugsun og eftir að hafa fengið hvatningu víða að.
„Ég er mjög sáttur og bjartsýnn fyrir hönd flokksins í komandi kosningum,” segir Jón og það verði barist fyrir því að ná allavega fimm sætum inn.
„Við teljum okkur eiga fullt erindi. Reynsla mín og þekking nýtist vel á þessum góða lista.“
Jón sóttist eftir 2. sæti á listanum en þegar það gekk ekki sóttist hann ekki eftir 3. eða 4. sæti eins og hann hefði getað gert á fundi síðustu helgi. Bryndís Haraldsdóttir og Rósa Guðbjartsdóttir voru skipaðar í þau sæti á fundinum.
„Svo bara eftir nokkra daga og alla þá hvatningu sem ég hef fengið var ákveðið að stilla þessu upp svona og ég er mjög sáttur við það.“
Hann segist spenntur að halda áfram.
„Ég væri ekki í þessu nema ég væri með ástríðu fyrir þessu og væri með trú á verkefnunum.“
Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í heild:
- Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, Garðabæ
- Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, Kópavogi
- Bryndís Haraldsdóttir, alþingismaður, Mosfellsbæ
- Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri, Hafnarfirði
- Jón Gunnarsson, alþingismaður, Kópavogi
- Árni Helgason, lögmaður, Seltjarnarnesi
- Ragnhildur Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar, Seltjarnarnesi
- Viktor Pétur Finnsson, formaður SUS, háskólanemi, Hafnarfirði
- Sunna Sigurðardóttir, deildarstjóri, Garðabæ
- Jana Katrín Knútsdóttir, hjúkrunarfræðingur, Mosfellsbæ
- Ragnhildur Sophusdóttir, forstöðumaður, Kópavogi
- Halla Sigrún Mathiesen, verkefnastjóri, Hafnarfirði
- Birkir Guðlaugsson, lögfræðingur, Garðabæ
- Eva Björk Harðardóttir, hótelstjóri, Hafnarfirði
- Birgir Leifur Hafþórsson, fyrrv. atvinnukylfingur, Garðabæ
- Sigríður Marta Harðardóttir, eigandi Elley, Seltjarnarnesi
- Óskar Örn Ágústsson, fjármálastjóri, Mosfellsbæ
- Þorvarður Hrafn Ásgeirsson, sagnfræðingur, Kópavogi
- Diana Björk Olsen, deildarstjóri, Hafnarfirði
- Vigdís Gunnarsdóttir, lögfræðingur/MBA, Garðabæ
- Bjarni Thedór Bjarnason, rekstrarhagfræðingur, Garðabæ
- Kristján Jónas Svavarsson, stálvirkjasmíðameistari, Hafnarfirði
- Birta Guðrún Helgadóttir, nemi, Kópavogi
- Bogi Jónsson, bæklunarskurðlæknir, Garðabæ
- Hólmar Már Gunnlaugsson, sjómaður, Grindavík
- Ingimar Sigurðsson, vátryggingaráðgjafi, Seltjarnarnesi
- Elísabet S. Ólafsdóttir, sáttamiðlari, Mosfellsbæ
- Óli Björn Kárason, alþingismaður, Seltjarnarnesi