Íslenski boltinn

„Ég hefði getað skorað átta eða níu mörk í þessum leik“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benoný Breki Andrésson fagnar einu af fimm mörkum sínum á móti HK um helgina.
Benoný Breki Andrésson fagnar einu af fimm mörkum sínum á móti HK um helgina. Vísir/Anton Brink

Stúkan valdi KR-inginn Benoný Breka Andrésson besta unga leikmann Bestu deildar karla í fótbolta í ár og hann ræddi við Guðmund Benediktsson í lokaþættinum á Stöð 2 Sport í gær.

„Ekki bara besti ungi leikmaðurinn á tímabilinu heldur maðurinn sem sló loksins markametið í efstu deild. Fimm mörk í gær, takk fyrir, 21 mark í efstu deild,“ sagði Guðmundur Benediktsson þegar hann afhenti þessum nítján ára gamla strák verðlaun sín.

Sá hann þetta fyrir sér?

Gummi Ben vildi fá að vita hvort að hefði séð þetta fyrir sér fyrir lokaleikinn á móti HK.

„Ég verð eiginlega að segja að ég var búinn að hugsa þetta fyrir leik að mig vantaði fjögur mörk. Það var nokkurn vegin stærsta markmiðið mitt í leiknum var að ná eins mörgum mörkum og ég gat,“ sagði Benoný Breki.

„Ég hefði allan daginn getað skorað fleiri. Ég hefði getað skorað átta eða níu mörk í þessum leik. Ég er mjög ánægður með þessi fimm,“ sagði Benoný.

Ætlaði sér að verða markahæstur

Setti hann sér markmið í markaskorun fyrir þetta tímabil?

„Ég setti mér markmið fyrir tímabilið og ég ætlaði að verða markahæstur. Að bæta metið var með þarna inn í. Síðan náði ég að gera það í gær og ég er bara mjög ánægður,“ sagði Benoný.

„Áður en þú ferð vil ég spyrja þig: Hvað er að fara að gerast í haust hjá Benoný,“ spurði Guðmundur.

„Það verður bara að koma í ljós. Mér finnst líklegast ég fari út. Ég veit ekkert hvað en það kemur miklu betur í ljós á næstu dögum,“ sagði Benoný.

Gærdagurinn skemmdi ekkert fyrir

„Gærdagurinn skemmdi ekkert fyrir,“ skaut Guðmundur inn í.

„Nei alls ekki. Þetta verður bara að koma betur í ljós á næstu dögum,“ sagði Benoný

„Ég vona að ég sjái þig ekki í Bestu deildinni á næstu leiktíð þó að það væri mjög gaman að hafa þig. Innilega til hamingju með tímabilið,“ sagði Gummi Ben eins og sjá má hér fyrir neðan.

Klippa: Viðtal Gumma Ben við Benoný Breka



Fleiri fréttir

Sjá meira


×