Amorim svaraði spurningum blaðamanna á portúgölsku sem fór mjög í taugarnar á Gary Cotterill, blaðamanni Sky, sem bað um að fá að minnsta kosti eitt svar á ensku.
„Hefur Manchester United beðið þig um að tala ekki ensku? Ég velti fyrir mér hvort þú værir meðvitaður að ef þú vinnur annað kvöld [í kvöld] verður það frábært fyrir núverandi félag þitt en einnig fyrir nýja félagið. Þú gætir orðið hetja jafnvel áður en þú ferð um borð í vélina til Manchester. Hefur þér komið það til hugar?“ sagði Cotteril sem spurði svo hvort Amorim gæti svarað á ensku.
„Fyrirgefðu, ég get ekki gert það, nei. Þau munu sakna þess að heyra mig tala portúgölsku,“ svaraði Amorim.
„Þau hafa fengið 25 mínútur á portúgölsku. Við viljum fá tíu sekúndur á ensku,“ sagði Cotteril þá.
Fjölmiðlafulltrúi Sporting sagði þá að fundurinn yrði áfram á portúgölsku en blaðamenn gætu spurt Amorim á ensku þegar hann tæki til starfa hjá United eftir nokkra daga.
Þessi einkar vandræðulegu samskipti Amorims og Cotterils má sjá hér fyrir neðan.
Leikur Sporting og Manchester City hefst klukkan 20:00 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4.