Erlent

Þjóðarleiðtogar kasta kveðju á Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump með sínu fólki á sviði í Flórída.
Donald Trump með sínu fólki á sviði í Flórída. AP/Lynne Sladky

Þjóðarleiðtogar heimsins og aðrir leiðtogar eru byrjaðir að kasta kveðjum á Donald Trump og hrósa honum fyrir væntanlegan sigur hans í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Þeirra á meðal eru Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, og Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands.

Netanjahú hrósaði Trump fyrir einhverja bestu pólitísku endurkomu sögunnar. Hann sagði sögulega endurkomu Trumps tákna nýtt tímabili bandalags Bandaríkjanna og Ísrael.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagðist tilbúinn til að starfa með Trump næstu árin í nafni virðingar og metnaðar og vinna að frið og velmegun.

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, hrósaði Trump fyrir frækinn sigur hans. Þá sagðist hann kunna að meta nálgun Trumps til að stuðla til friðar „með styrkleika“.

Það er óhætt að segja að Úkraínumenn séu stressaðir yfir kjöri Trumps, sem hefur heitið því að binda enda á stríðið í Úkraínu á fyrsta degi kjörtímabils síns. Því hefur verið haldið fram að það vilji hann gera með því að skera alfarið á stuðning Bandaríkjamanna við Úkraínu.

Í kveðju sinni til Trumps segir Selenskí að Úkraínumenn reiði sig á áframhaldandi stuðning bæði Repúblikana og Demókrata í Bandaríkjunum.

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, segist hlakka til þess að vinna með Trump.

Mark Rutte, nýr framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagins, hefur einnig kastað kveðju á Trump. Hann segist hafa rætt við hann og segir að forysta Trumps muni skipta sköpum í að halda bandalaginu öflugu.

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, segir sigur Trumps vera sigur alls heimsins.

Aleksander Vucic, forsætisráðherra Serbíu, hrósaði Trump einnig fyrir sigurinn og sagði Serba hlakka til að vinna með Bandaríkjamönnum.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hrósaði Trump einnig fyrir sigurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×