Katar hefur um nokkurt skeið verið einskonar hlutlaust svæði innan Mið-Austurlanda þar sem deiluaðilar hafa reynt að miðla málum, ekki bara milli Ísraela og Hamas, heldur einnig í deilum Bandaríkjamanna, Rússa, Talíbana og Írana.
Viðræður hafa farið fram í Katar milli deiluaðila á Gasa-svæðinu en nú hefur ríkisstjórnin tilkynnt að viðræður muni ekki hefjast fyrr en aðilar „sýni vilja til að semja“.
Greint var frá því fyrr í vikunni að Bandaríkjamenn hefðu reynt að knýja á um það, að Hamas-liðar fengju ekki lengur aðsetur í Doha höfuðborg Katar. Í frétt BBC er því fleygt fram að um lokatilraun Biden-stjórnarinnar, til að ná samkomulagi, sé að ræða.
Þónokkrir miðlar greindu frá því að Katarar hefðu samþykkt að láta Hamas-liða loka skrifstofum sínum í Doha. Því hafna aftur á móti bæði Hamas og ríkisstjórn Katar.
Þeir hafa hins vegar verið alveg skýrir með það að hlutverki ríkisins sem sáttasemjara sé lokið, í bili.
„Katar tilkynnti aðilum fyrir tíu dögum síðan, á meðan síðustu viðræður voru í gangi, að ríkið myndi fresta sínum tilraunum til að miðla málum milli Hamas og Ísraels ef ekki væri hægt að ná samkomulagi,“ sagði í tilkynningu utanríkisráðuneytis.
Hamas-liðar höfnuðu síðasta boði um vopnahlé í október, en samtökin hafa ætíð kallað eftir algjöru fráhvarfi ísraelskra hermanna frá Gasa-svæðinu. Ísraelar hafa einnig verið sakaðir um að hafna samningum. Nokkrum dögum áður en varnarmálaráðherann Yoav Gallant var rekinn úr starfi sakaði hann forsætisráðherrann Netanjahú um að hafna tilboði þvert á tilmæli öryggisráðgjafa.