Innlent

Stærsti skjálftinn við Öskju frá árs­byrjun 2022

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Öskjuvatn.
Öskjuvatn. Vísir/Rax

Jarðskjálfti að stærð 3,0 varð klukkan 08:13 í morgun á austurbakka Öskjuvatns, 1,6 kílómetra frá Víti sem er stærsti sprengigígurinn í Öskju. Þetta er stærsti skjálftinn sem hefur mælst á svæðinu síðan í janúar 2022.

Þetta staðfestir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við Vísi. Hún tekur fram að þetta bendi ekki til þess að það sé að draga til tíðinda í eldstöðinni Öskju en landris hefur mælst stöðugt á svæðinu síðan í júlí á síðasta ári.

„Það er mjög algengt að við fáum skjálfta, sérstaklega við austurjaðar Öskjunnar og austan við Öskjuvatn. Þetta eru iðulega skjálftar sem við tengjum við jarðhita. Það hafa verið nokkrir skjálftar á þessu ári rétt undir þremur, svo þetta er ekki áberandi stærsti skjálftinn,“ segir hún og bætir við að skjálftinn tengist jarðhita á svæðinu.

Salóme tekur fram að skjálftinn í morgun hafi verið einangrað atvik en ekki hefur mælst aukin skjálftavirkni á svæðinu né smáskjálftar. Tólf skjálftar hafa orðið á svæðinu í þessari viku.

„Það hefur hægt töluvert á landrisi í Öskju, síðan í júlí 2023. Það var búið að vera mjög jafnt landris fram að því en þá hægðist á þessu og búinn að vera jafn hraði á þessu síðan. Þann 2. september hafði mælst tólf sentímetra landris síðasta árið.“

Veðurstofan telur líklegt að kvika safnist á um þriggja kílómetra dýpi undir Öskju en engar vísbendingar eru um að hún færist nær yfirborðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×