Innlent

Varað við vatna­vöxtum og skriðu­föllum: Vegir lokuðust á Vest­fjörðum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Horft yfir Ísafjarðardjúp.
Horft yfir Ísafjarðardjúp.

Vegurinn í Ísafjarðardjúpi lokaðist í nótt eftir að áin Rjúkandi í Hestfirði flæddi yfir veginn. Einnig féll aurskriða yfir veginn í sama firði, með þeim afleiðingum að nokkrir ökumenn komust ekki leiða sinna.

Björgunarsveitir voru kallaðar til og aðstoðuðu fólk við að komast burt.

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum stóð til að hreinsa veginn núna í morgunsárið en að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar verður staðan tekin í hádeginu.

Á vef Veðurstofu Íslands er fjallað um málið en þar segir að nokkrar skriður hafi fallið á vegi á Vestfjörðum í gær og í gærkvöldi, meðal annars á Barðaströnd í nágrenni við Arnórsstaði og við gangamunna Dýrafjarðarganga, Dýrafjarðarmegin.

Áfram er spáð mikilli úrkomu á Vestfjörðum, Barðaströnd, Snæfellsnesi og Suðurlandi í dag og auknar líkur á skriðuföllum, þar með talið grjóthruni, farvegabundnum aurskriðum og jarðvegsskriðum.

Vatnavextir hafa sést í ám og lækjum og Veðurstofa biðlar til fólks um að sýna aðgát nálægt giljum og farvegum og fylgjast með veðurviðvörunum og umferðartakmörkunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×