Frá þessu greinir Guðný í viðtali við Fótbolti.net en þar segir hún að meiðslin hafi verið að hrjá hana allt frá því hún lék með AC Milan á Ítalíu.
„Þetta byrjaði þegar ég var hjá AC Milan. Er búin að vera glíma við þetta í þrjú ár en ekki alltaf jafn slæmt,“ sagði Guðný og taldi að Mílanó-liðið hafi vitað hvað væri að hrjá hana en ekki viljað deila því með henni.
„Það fyrsta sem Svíarnir sögðu mér var hvað þetta væri og að það væri ekkert mál að losna við þetta. Er einhver taugaverkur í tánum, er mjög einföld aðgerð og ég verð orðin klár þegar næsta tímabil byrjar,“ sagði Guðný jafnframt í viðtali sínu við Fótbolti.net.
Hin 24 ára gamla Guðný á að baki 34 A-landsleiki. Hún gekk í raðir Kristianstad fyrr á þessu ári og átti sinn þátt í að liðið kom á óvart og var hársbreidd frá því að ná Evrópusæti.