Eins og kunnugt er hefur fyrirtækið Hvalur hf. sótt um veiðileyfi á langreyði og barst sú umsókn 23. október síðastliðinn. Hin félögin þrjú hafa sótt um leyfi vegna hrefnuveiða en þau eru Útgerðafélagið Vonin ehf., Tjaldtangi ehf. og Fasteignafélagið Ból ehf.
Vonin sótti um veiðileyfi 28. júlí síðastliðinn, Tjaldtangi 25. október og Ból 29. október.
Útgerðafélagið Vonin er í eigu Braga Ólafssonar (50%) og Þórðar Bragasonar (50%) en Tjaldtangi er í eigu félagsins Hrafna-Flóki ehf. sem er í eigu Gunnars Torfasonar (50%) og Hildar Kristínar Einarsdóttur (50%).
Fasteignafélagið Ból er í eigu Þórðar Steinar Lárussonar, Þorbjargar Bergsdóttur, Þorsteins Orra Þórðarsonar, Þórðar Berg Þórðarsonar og Þorbjarnar Atla Þórðarsonar, sem hvert um sig eiga fimmtung í félaginu.
Í svörum ráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, sem einnig gegnir hlutverki matvælaráðherra í sitjandi starfsstjórn, hafi rætt stöðu Jóns Gunnarssonar og að þann 7. nóvember hafi Bjarni upplýst ráðuneytisstjóra um að Jón ætti ekki að koma að meðferð umsókna um leyfi til að stunda hvalveiðar.
„Rétt er að taka fram að á þeim tíma sem málið hefur verið til skoðunar í ráðuneytinu hefur Jón ekki komið að meðferð þess,“ segir í svörunum.