Margir hafa eflaust orðið varir við að mandarínurnar eru mun seinna á ferðinni nú en áður og þær fást bara í litlum kössum. Það er von á stóru kössunum eftir helgi en í mun minna magni en áður.
„Þetta er búið að vera erfitt í ár. Þessir atburðir í Valencia á Spáni, þessar miklu rigningar og flóð, settu allt á annan endann á síðustu vikum,“ segir Bjarni Friðrik Jóhannesson, forstöðumaður innkaupa og vöruflokkastýringar Krónunnar.
„Við erum að fá klementínurnar frá Spáni á þessum tíma árs, frá október fram í febrúar. Sextíu prósent af framleiðslu Spánar kemur frá þessu héraði.“
Gæðin að batna
Flóðin riðu yfir í lok október, yfir tvö hundruð létust og þúsundir misstu heimili sín og lífsviðurværi. Hamfarirnar hafa haft áhrif á gæði ávaxtanna.
„Rakinn gerir ávextinum ekki gott en við finnum að gæðin sem voru að koma í hús í morgun eru betri en í síðustu viku.“
Þjófstart fyrir jólin
Fyrri ár hafa klementínurnar verið komnar í verslanir í byrjun nóvembermánaðar. Fram kom í fréttum í gær að einungis sé von á fjórðungi venjulegs magns frá framleiðandanum Robin til landsins og gæti því orðið klementínuskortur fyrir jólin.
„Okkar birgjar hafa fullvissað okkur um að Krónan fái allt það magn af klementínum sem við höfðum áætlað frá og með næstu viku,“ segir Bjarni.
Viðskiptavinir hafi furðað sig á hvers vegna ávöxturinn fáist ekki.
„Það er bara eðlilegt. Þetta er sá tími sem klementínurnar eru á borðum okkar. Þetta er svona smá þjófstart fyrir jólin.“