Ísland mátti þola tap gegn Ítalíu í undankeppni Evrópumótsins í körfubolta. Lokatölur í Laugardalshöll 71-95.
Ítalía er þar með í efsta sæti riðilsins með fullt hús stiga eftir þrjá leiki. Tyrkland kemur þar á eftir með tvo sigra. Ísland er í þriðja sæti hefur unnið einn leik, gegn Ungverjalandi sem er sigurlaust í neðsta sæti.
Þrjú efstu liðin komast á lokamót EM sem verður haldið á næsta ári.
Ísland spilar gegn Ítalíu ytra á mánudag. Lokaleikirnir tveir verða svo spilaðir í febrúar. Þar leikur Ísland gegn Ungverjalandi á útivelli og Tyrklandi á heimavelli.

Byrjuðu fínt en fundu sig fljótt undir
Leikurinn fór vel af stað og Ísland tók 12-8 forystu en fleiri urðu íslensku stigin ekki í fyrsta leikhluta, sem endaði 12-25.
Takturinn var sá sami í öðrum leikhluta, afar slæmur hjá Íslandi en hreint ágætur hjá Ítalíu.
Ísland komst nokkrum sinnum á línuna en skoraði varla stig úr opnum leik og Ítalir héldu áfram að auka við forystu sína, sem var orðin 25-49 þegar flautað var til hálfleiks.

Trommurnar dregnar fram í hálfleik og staðan batnaði
Meðan leikmenn Íslands litu í eigin barm og lögðu á ráðin fyrir seinni hálfleik nýttu áhorfendur íslenska liðsins hálfleikshléið til að sækja trommur og tóna söngraddirnar.
Það skilaði mun meiri orku í upphafi seinni hálfleiks. Sama lið og byrjaði leikinn spreytti sig þá loksins aftur saman og staðan fór að batna. Tryggvi setti tóninn í fyrstu sókn, tróð boltanum niður með látum og byrjaði 15-0 áhlaup Íslands, sem gaf stöðuna 40-49.

Ítalía var í algjörum vandræðum og hitti ekki úr skoti fyrstu fimm mínútur seinni hálfleiks, en fann taktinn aftur undir lok þriðja leikhluta og fór með 54-65 forystu inn í fjórða leikhluta.
Lítil spenna undir lokin
Orkan sem íslenska liðið var með í þriðja leikhluta var ekki eins sjáanleg í þeim fjórða. Ítalir fóru aftur að finna leiðir að íslensku körfunni, þreytumerki á vörninni, og sóknarlega gerðust strákarnir okkar sekir um fjölmörg mistök.

Með hverri sókn sem leið varð íslenskur sigur sífellt ólíklegri og liðið fór að bölva örlögum sínum á meðan Ítalía nýtti meðbyrinn og stækkaði forystuna enn frekar. Lokatölur í Laugardalshöll 71-95.
Lykilleikmenn fjarverandi
Ítalía var án sinna öflugustu leikmanna og spilaði á hálfgerðu varaliði. Engir leikmenn sem spila í EuroLeague-liðum tóku þátt í leik kvöldsins, en reiknað er með þeim í næsta leik á mánudaginn.

Ísland var án leikstjórnandans Martins Hermannssonar og framherjans Kristófers Acox. Þá var Ragnar Nathaníelsson ekki valinn í hópinn eins og síðast.
Mikilvægi Martins er óneitanlegt. Hinir tveir síðarnefndu hefðu líka komið sér vel í kvöld, vantaði upp á varnarstyrk og stærð í teiginn fyrir íslenska liðið. Íslenska liðið spilaði mun betur þegar bæði Tryggvi og Haukur voru inni á vellinum, en það er auðvitað ekki hægt að keyra á þeim í fjörutíu mínútur.

Stemning og umgjörð
Uppselt í Laugardalshöll en eins og áður segir var heldur hljóðlátt í fyrri hálfleik. Auðvitað ekki mikil ástæða til að fagna, en alltaf má hvetja.
Það hækkaði töluvert hljóðið í áhorfendum í upphafi seinni hálfleiks eftir að trommurnar voru sóttar og stemningin var mikil meðan vel gekk hjá Íslandi en þagnaði þegar Ítalía tók aftur völdin.

