Enski boltinn

Meistararnir og Skytturnar missa út lykil­menn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Spilar ekki næsta mánuðinn.
Spilar ekki næsta mánuðinn. Jose Manuel Alvarez Rey/Getty Images

Englandsmeistarar Manchester City verða án lykilsmanns í hinni mikilvægu jólatörn ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu. Sömu sögu er að segja af Arsenal sem verður einnig án eins síns besta varnarmanns næstu mánuðina.

Englandsmeistararnir eru nú þegar án hins gríðarlega mikilvæga Rodri það sem eftir lifir tímabils eftir að hann sleit krossband í hné. Ekki minnkar álagið á miðjumönnum liðsins á næstunni en The Athletic hefur greint frá því að króatíski miðvallarspilarinn Mateo Kovačić verði frá næsta mánuðinn eða svo.

Kovačić hefur byrjað síðustu sex leiki Man City og var jafnframt í byrjunarliði Króatíu í báðum leikjum þjóðarinnar í Þjóðadeildinni. Hann var hins vegar tekinn af velli í hálfleik gegn Portúgal á mánudaginn var og nú hefur komið í ljós að hann verður frá í mánuð.

Hann missir því af leik liðsins gegn Tottenham Hotspur um helgina, stórleiknum gegn Liverpool 1. desember sem og nágrannaslagnum gegn Manchester United þann 15. desember.

Alls missir hinn þrítugi miðjumaður af átta leikjum verði hann frá keppni í þann tíma sem hefur verið gefinn upp.

Arsenal hefur líka orðið fyrir áfalli en hægri bakvörðurinn Ben White verður frá keppni næstu mánuðina samkvæmt þjálfara liðsins, Mikel Arteta. Á blaðamannafundi í dag, föstudag, sagði þjálfarinn að White hefði farið undir hnífinn vegna meiðsla á hné og muni ekki spila meira á næstunni.

Hinn 27 ára gamli White spilaði allan leikinn í 1-1 jafntefli Arsenal gegn Chelsea fyrir landsleikjahlé en hefur verið að glíma við ýmis meiðsli frá því að leiktíðin hófst.

Ekki er vitað hvenær White snýr aftur en gæti verið svo að hann hafi lokið leik á leiktíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×