Innlent

Lofaði stuðningi og upp­skar stuðning kvik­mynda­gerðar­manna

Árni Sæberg skrifar
Lilja virðist vinsæl meðal kvikmyndagerðarmanna.
Lilja virðist vinsæl meðal kvikmyndagerðarmanna. Vísir/Vilhelm

Hópur kvikmyndagerðarmanna hefur lýst yfir stuðningi við Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra. Lilja kynnti á dögunum framtíðarsýn og aðgerðaáætlun í málefnum kvikmyndagerðar.

Talsvert hefur verið skrifað um málefni kvikmyndaiðnaðarins og stöðu Kvikmyndasjóðs sérstaklega síðustu vikur. Fyrir tæpum tveimur vikum skoraði hópur fagfólks í kvikmyndagerð á Alþingi að bregðast við slæmri stöðu Kvikmyndasjóðs. 

„Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður sjóðurinn árið 2025 á sama stað og hann var árið 2006. Þessi afturför er þegar farinn að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir framleiðslu íslenskra kvikmynda,“ sagði í yfirlýsingu hópsins. Þar var lagt til að 500 milljónir yrðu færðar úr endurgreiðslu og inn í Kvikmyndasjóð. Meðal þeirra sem skrifuðu undir voru Hildur Guðnadóttir, Aníta Briem, Nína Dögg Filippusdóttir og Benedikt Erlingsson.

Brugðist við daginn eftir

Strax daginn eftir hvatningu kvikmyndagerðarmannanna samþykkti fjárlaganefnd Alþingis breytingartillögu á fjárlögum sem mælti fyrir um stóraukin framlög í Kvikmyndasjóð. 300 milljónir króna voru millifærðar til að styrkja innlenda kvikmyndagerð og framlög til Kvikmyndasjóðs aukin um þá fjárhæð.

„Hann er ekki tómur. Nú hefur kvikmyndaiðnaðurinn vaxið og dafnað síðustu ár og hann hefur verið að skapa fjölda nýrra starfa og því var afar brýnt að styrkja Kvikmyndasjóð og við höfum verið að vinna að því með fjárlaganefndinni og geiranum síðustu mánuði og nú er verið að auka í hann og þetta er afar ánægjuleg niðurstaða,“ sagði Lilja í samtali við Vísi í tilefni af því.

Hefur markað stefnu til 2030

Lilja stakk svo niður penna hér á Vísi í fyrradag og fjallaði um næstu skref í kvikmyndagerð á Íslandi. „Kvikmyndagerð á Íslandi hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum. Markviss skref hafa verið stigin til þess að styrkja umgjörð greinarinnar á grundvelli Kvikmyndastefnu til ársins 2030.“

Þar á meðal hafi aðgerðum verið hrint í framkvæmd sem snúa að:

  • hækkun endurgreiðsluhlutfalls í kvikmyndagerð úr 25% í 35% fyrir stærri verkefni,
  • 1,3 milljarða kr. viðbótarframlögum í Kvikmyndasjóð,
  • kvikmyndanámi á háskólastigi sem sett var á laggirnar við Listaháskóla Íslands,
  • hækkun framlaga til kennslu í kvikmyndagerð á framhaldsskólastigi,
  • nýjum starfslaunasjóði kvikmyndahöfunda sem tekur til starfa 2025, samkvæmt breytingum á lögum um starfslaun listamanna,
  • lögfestingu nýs fjárfestingasjóðs fyrir sjónvarpsefni.

Baltasar Kormákur, Sigurjón og Ólafur Darri skrifa undir

Í tilefni af grein Lilju hefur hópur fyrirtækja í kvikmyndagerð sent frá sér yfirlýsingu þar sem stuðningi við Lilju er lýst yfir.

„Íslensk kvikmyndagerð er ein af undirstöðum íslenskrar menningar og tungu, og skapar veruleg efnahagsleg verðmæti fyrir þjóðarbúið,“ segir yfirlýsingu, sem eftirfarandi undirrita:

  • Andri Ómarsson, framkvæmdastjóri Glassriver
  • Anton Máni Svansson, framleiðandi STILL VIVID
  • Baltasar Kormákur, forstjóri RVK Studios
  • Birgitta Björnsdóttir, framkvæmdastjóri ZikZak
  • Birkir Blær Ingólfsson, framleiðandi Act4
  • Davíð Óskar Ólafsson, framleiðandi Truenorth
  • Gunnar Karlsson, leikstjóri GunHil
  • Hanna Björk Valsdóttir, framleiðandi Akkeri Films
  • Heather Millard, framleiðandi Compass Films
  • Hilmar Sigurðsson, framleiðandi GunHil
  • Hlín Jóhannesdóttir, framleiðandi Ursus Parvus
  • Hörður Rúnarsson, framleiðandi Act4
  • Jónas Margeir Ingólfsson, framleiðandi Act4
  • Kristinn Þórðarson, framleiðandi Truenorth
  • Leifur Dagfinnsson, forstjóri Truenorth
  • Ólafur Darri Ólafsson, framleiðandi Act4
  • Sigurjón Sighvatsson, framleiðandi Eyjafjallajökull Entertainment
  • Tjörvi Þórsson, forstjóri Sagafilm

Auki verðmætasköpun í samfélaginu

Þá segir að skýr framtíðarsýn og markvissar aðgerðir á næstu árum séu nauðsynlegar til að styrkja grunnstoðir þessarar mikilvægu menningargreinar. Öflugur Kvikmyndasjóður ásamt traustu og fyrirsjáanlegu endurgreiðslukerfi gegni lykilhlutverkum í að styðja við fjölbreytta sköpun, fjölga skapandi störfum og auka verðmætasköpun fyrir samfélagið.

„Við undirrituð, sem framleiðum kvikmyndir og sjónvarpsefni á Íslandi, viljum halda áfram að vinna náið með stjórnvöldum að uppbyggingu greinarinnar. Við fögnum þeirri framtíðarsýn sem Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, hefur sett fram í grein sinni „Kvikmyndagerð á Íslandi: Næstu skref“. Þar eru kynntar tillögur og aðgerðir sem við teljum afar mikilvægar fyrir áframhaldandi þróun greinarinnar. Þær styðja við menningarlegt hlutverk kvikmyndagerðar, laða hæfileikaríkt fólk til skapandi starfa og tryggja samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavettvangi til framtíðar.

Við styðjum Lilju Alfreðsdóttur til góðra verka.“

Hér að neðan má sjá yfirlýsinguna í heild sinni:

Íslensk kvikmyndagerð er ein af undirstöðum íslenskrar menningar og tungu, og skapar veruleg efnahagsleg verðmæti fyrir þjóðarbúið.

Skýr framtíðarsýn og markvissar aðgerðir á næstu árum eru nauðsynlegar til að styrkja grunnstoðir þessarar mikilvægu menningargreinar. Öflugur Kvikmyndasjóður ásamt traustu og fyrirsjáanlegu endurgreiðslukerfi gegna lykilhlutverkum í að styðja við fjölbreytta sköpun, fjölga skapandi störfum og auka verðmætasköpun fyrir samfélagið.

Við undirrituð, sem framleiðum kvikmyndir og sjónvarpsefni á Íslandi, viljum halda áfram að vinna náið með stjórnvöldum að uppbyggingu greinarinnar. Við fögnum þeirri framtíðarsýn sem Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, hefur sett fram í grein sinni „Kvikmyndagerð á Íslandi: Næstu skref“. Þar eru kynntar tillögur og aðgerðir sem við teljum afar mikilvægar fyrir áframhaldandi þróun greinarinnar. Þær styðja við menningarlegt hlutverk kvikmyndagerðar, laða hæfileikaríkt fólk til skapandi starfa og tryggja samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavettvangi til framtíðar.

Við styðjum Lilju Alfreðsdóttur til góðra verka.

Undirrituð:

Andri Ómarsson, framkvæmdastjóri Glassriver

Anton Máni Svansson, framleiðandi STILL VIVID

Baltasar Kormákur, forstjóri RVK Studios

Birgitta Björnsdóttir, framkvæmdastjóri ZikZak

Birkir Blær Ingólfsson, framleiðandi Act4

Davíð Óskar Ólafsson, framleiðandi Truenorth

Gunnar Karlsson, leikstjóri GunHil

Hanna Björk Valsdóttir, framleiðandi Akkeri Films

Heather Millard, framleiðandi Compass Films

Hilmar Sigurðsson, framleiðandi GunHil

Hlín Jóhannesdóttir, framleiðandi Ursus Parvus

Hörður Rúnarsson, framleiðandi Act4

Jónas Margeir Ingólfsson, framleiðandi Act4

Kristinn Þórðarson, framleiðandi Truenorth

Leifur Dagfinnsson, forstjóri Truenorth

Ólafur Darri Ólafsson, framleiðandi Act4

Sigurjón Sighvatsson, framleiðandi Eyjafjallajökull Entertainment

Tjörvi Þórsson, forstjóri Sagafilm

Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×