Liver­pool með fullt hús stiga á meðan Real er rjúkand rúst

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mac Allister fagnar því að koma Liverpool yfir.
Mac Allister fagnar því að koma Liverpool yfir. Justin Setterfield/Getty Images

Gott gengi lærisveina Arne Slot hjá Liverpool virðist engan endi ætla að taka. Í kvöld vann Rauði herinn sannfærandi 2-0 sigur á Real Madríd þar sem bæði liðin brenndu af vítaspyrnu. Gestirnir frá Madríd eru hins vegar í vondum málum eftir þrjú töp í fimm leikjum.

Það tók Liverpool ekki langan tíma að skapa sér fyrsta marktækifæri leiksins. Úrúgvæinn Darwin Núñez átti þá skot úr þröngu færi sem Thibaut Courtois varði vel í marki gestanna. Boltinn hrökk hins vegar út í teiginn þar sem Raúl Asencio rak tánna í boltann sem var við það að renna yfir marklínuna þegar Asencio sjálfur tókst að hreinsa.

Núñez fékk aftur fínt færi um miðbik fyrri hálfleiks en líkt og í fyrra skiptið var Courtois vel á verði og staðan því enn 0-0. Þannig var staðan þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik. 

Kylian Mbappé hefur átt betri leiki.EPA-EFE/PETER POWELL

Heimamenn byrjuðu síðari hálfleik af miklum krafti og á 52. mínútu braut Alexis Mac Allister ísinn. Eftir góða sókn Liverpool átti Mac Allister gott þríhyrningsspil við Conor Bradley og átti svo lúmskt skot niðri í hornið fjær sem Courtois réð ekki við. Mac Allister var nálægt því að bæta við öðru marki skömmu síðar þar sem það stóð ekki steinn yfir steini hjá gestunum.

Gestirnir fengu vítaspyrnu eftir rétt rúmlega klukkustund. Á punktinn fór Mbappé og virtist Frakkinn gríðarlega stressaður meðan hann beið eftir að fá grænt ljós á að taka spyrnuna. Hún var ekki góð og las markvörðurinn Caoimhin Kelleher spyrnu Mbappé eins og opna bók.

Kelleher vissi upp á hár hvað Mbappé myndi gera.Justin Setterfield/Getty Images

Innan við tíu mínútum síðar fengu heimamenn vítaspyrnu. Hinn sjóðheiti Mohamed Salah tók spyrnuna en þrumaði henni framhjá og staðan því enn 1-0 þegar tuttugu mínútur lifðu leiks. 

Salah valdi kraft fram yfir nákvæmni.Robbie Jay Barratt/Getty Images

Á 77. mínútu fékk heimaliðið hornspyrnu. Andrew Robertson tók hana stutt, fékk boltann aftur og smellti boltanum inn á teig þar sem Cody Gakpo reis hæst og stangaði boltann í netið. Staðan orðin 2-0 og sigurinn svo gott sem í höfn. Ef eitthvað er þá var það Liverpool sem fékk betri færi þangað til flautað var til leiksloka. 

Lokatölur á Anfield 2-0 og Liverpool áfram með fullt hús stiga að loknum fimm leikjum í Meistaradeild Evrópu. Real Madríd er hins vegar í 24. sæti, síðasta sætinu sem kemst áfram í útsláttarkeppnina þegar þrír umferðir eru eftir af deildarkeppninni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira