Fótbolti

Guardiola allur útklóraður eftir leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eins og sjá má var Pep Guardiola allur útklóraður eftir leikinn gegn Feyenoord.
Eins og sjá má var Pep Guardiola allur útklóraður eftir leikinn gegn Feyenoord.

Manchester City kastaði frá sér þriggja marka forystu gegn Feyenoord í Meistaradeild Evrópu í gær. Útgangurinn á Pep Guardiola, knattspyrnustjóra liðsins, eftir leik vakti athygli.

City hafði tapað fimm leikjum í röð þegar kom að viðureigninni gegn Feyenoord í gær. Allt stefndi í að Englandsmeistararnir myndu loksins vinna leik því þeir komust í 3-0. En hollenska liðið kom til baka, skoraði þrjú mörk á fjórtán mínútum og náði jafntefli.

Þegar Guardiola mætti í viðtal eftir leikinn vakti athygli að hann var með klórför á enninu og sár á nefinu. Ýmsir höfðu því áhyggjur af Spánverjanum, að slæmt gengi síðustu vikna væri að hafa full mikil áhrif á hann.

Á blaðamannafundi útskýrði Guardiola að hann hefði sjálfur klórað sig. „Ég vildi meiða sjálfan mig,“ bætti hann svo við.

Þessi ummæli Guardiolas fóru fyrir brjóstið á einhverjum og hann sá þig því knúinn til að senda frá sér afsökunarbeiðni. Þar sagðist hann ekki hafa ætlað að gera lítið úr jafn alvarlegu máli og sjálfskaða.

Fyrir þennan afleita kafla City á tímabilinu hafði Guardiola aldrei mátt þola meira en þrjú töp í röð á stjóraferlinum sem hófst 2008.

Næsti leikur City er gegn Liverpool, toppliði ensku úrvalsdeildarinnar, á sunnudaginn. Átta stigum munar á liðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×