Spurt var hvort það kæmi til greina að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum en miðað við svör Kristrúnar virtist það ekki vera fyrsti valkostur.
„Mér líður bara ótrúlega vel. Þetta eru náttúrulega stórkostlegar niðurstöður fyrir okkur,“ sagði Kristrún um það hvernig hún hefði það eftir hálfsvefnlausa nótt.
Samfylkingin hefði unnið lengi að því að efla fylgið og meðal annars ferðast út um allt land og hlustað á fólk. „Það er auðvitað bara stórkostlegt að sjá þetta.“
Kristrún var spurð að því hvort hún ætti von á því að heyra frá forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur í dag, eða hvort hún hefði ef til vill heyrt í henni nú þegar.
„Við munum nú bara sjá hvernig dagurinn þróast,“ sagði hún. Það hlyti auðvitað að hafa einhver áhrif að flokkurinn hefði margfaldað þingmannafjöldann og væri orðinn stærstur á landsvísu. Hins vegar þyrfti líka að sjá hvernig tölur þróuðust inn í daginn og samtöl sömuleiðis.
Eru menn byrjaðir að tala saman?
„Við erum auðvitað búin að hittast í beinum útsendingum,“ svaraði Kristrún en sagði engar formlegar þreifingar hafa átt sér stað.
Hvað varðaði samstarf til vinstri eða hægri sagði hún, líkt og fyrr segir, niðurstöðurnar skýrt ákall um breytingar og að Samfylkingin vildi gjarnan standa undir því.