Innlent

Á­frýjar búvörulagamálinu til Hæsta­réttar

Árni Sæberg skrifar
Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins. Vísir/Arnar

Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið að óska eftir leyfi til að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, í máli sem varðar gildi breytinga á búvörulögum, beint til Hæstaréttar. Óbreyttur kemur dómurinn í veg fyrir að kjötafurðastöðvar séu undanþegnar samkeppnislögum.

Í tilkynningu þess efnis á vef Samkeppniseftirlitsins segir að að mati eftirlitsins hafi niðurstaða málsins augljóst fordæmisgildi um heimild til þess til að beita samkeppnislögum vegna samruna kjötafurðastöðva og annarrar háttsemi slíkra félaga sem kunni að fara gegn ákvæðum samkeppnislaga.

 Hafi mikla almenna þýðingu

Þá hafi niðurstaða málsins að mati eftirlitsins almenna þýðingu um stjórnskipulegt gildi laga um breytingu á búvörulögum og þann áskilnað sem felst í 44. gr. stjórnar­skrár­innar um að ekkert lagafrumvarp megi samþykkja fyrr en það hafi verið rætt við þrjár umræður á Alþingi. 

Jafnframt hafi niðurstaða málsins verulega samfélagslega þýðingu þegar litið er til þeirra áhrifa sem undanþáguheimildir búvörulaga hafi á starfsskilyrði bænda og samkeppni á kjötmarkaði.

Skipar framleiðendum að aðhafast ekki

Samkeppniseftirlitið hefur í dag ritað kjötafurðastöðvum og samtökum þeirra bréf. Þar sé greint frá ákvörðun eftirlitsins um að áfrýja dómi héraðsdóms. 

Jafnframt hafi þeim tilmælum verið beint til viðkomandi aðila að grípa ekki til neins konar aðgerða sem farið geta gegn samkeppnislögum á meðan málið er fyrir dómstólum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×