Þá hafa fregnir borist af straumi uppreisnarmanna til Hama en Assad-liðar flúðu margir þangað þegar Aleppo féll óvænt í hendur uppreisnarmanna um helgina, eftir einungis nokkurra daga átök. Undanfarin ár hafa litlar breytingar átt sér stað á víglínunni í norðvesturhluta Sýrlands en átök af þessari stærðargráðu hafa ekki átt sér stað á svæðinu frá 2020.
Uppreisnar- og vígahóparnir í norvestanverðu Sýrlandi eru að mestu leiddir af samtökum sem kallast Hayat Tahrir al-Sham eða HTS. Það eru öflugustu samtökin á svæðinu og eru þau leidd af manni sem heitir Abu Mohammed al-Joulani.
AP fréttaveitan hefur eftir talsmanni HTS að þegar Hama falli, sé Homs næst. Það er önnur borg sem liggur á milli Hama og Damaskus, höfuðborgar Sýrlands. Talsmaðurinn sagði höfuðborgina eiga að falla á eftir Homs.
Sjá má grófa mynd af stöðunni í Sýrlandi á korti Liveuamap.

Eftir að Assad-liðar hörfuðu frá Aleppo fóru margir þeirra til Hama, þar sem ný víglína var mynduð og varnir tryggðar á meðan uppreisnarmennirnir kláruðu að tryggja nýtt yfirráðasvæði þeirra og undirbjuggu áframhaldandi sóknaraðgerðir.
Nú eru uppreisnarmenn sagðir sækja að borginni úr tveimur áttum.
#Syria: rebel forces are now inside the village of Maar Shohur after capturing it from the regime.
— Thomas van Linge (@ThomasVLinge) December 3, 2024
This means they are advancing on the city of #Hama from the north and the east. pic.twitter.com/gpt1OGASQT
Heimildarmaður Reuters segir sveitir frá Írak, sem studdar eru af klerkastjórninni í Íran, taka þátt í vörnum Hama.
Undanfarin fjórtán ár hafa átök milli stjórnarhers Assads, studdur hefur verið af Rússum, Írönum og Hezbollah, við aragrúa uppreisnarhópa og vígahópa kostað allt að hálfa milljón manna lífið og valdið gífurlegum skemmdum í Sýrlandi.
Blaðamenn AP hafa eftir forsvarsmönnum hjálparsamtaka sem starfa á svæðinu að óbreyttir borgara hafi fallið í loftárásum og stórskotaliðsárásum undanfarinna daga. Þá hafi þúsundir fjölskylda þurft að flýja heimili sín.
Einnig eru fregnir að berast af matarskorti af svæðinu.
Aðrir hafa einnig sótt fram
Sýrlenskir Kúrdar og bandamenn þeirra í samtökunum Syrian Democratic Forces, segjast hafa tekið yfir stjórn nokkur þorpa og bæja sem áður voru undir stjórn Assad-liða í Deir Ezzor-héraði í austurhluta Sýrlands.
Bandaríkjamenn hafa gert loftárásir í austurhluta Sýrlands og eru þær árásir sagðar beinast af sveitum tengdum Íran og vígamönnum Íslamska ríkisins. Þær árásir eru þó ekki sagðar tengjast átökunum í vesturhluta landsins.
Aðrir hópar uppreisnar og vígamanna sem njóta stuðningi frá Tyrklandi hafa einnig sótt fram í norðanverðu landinu.