Fótbolti

Tveir ný­liðar í hópi þjóða sem Ís­land gæti mætt á EM í Sviss

Sindri Sverrisson skrifar
Walesverjar fögnuðu ákaft á Írlandi í kvöld eftir að hafa í fyrsta sinn tryggt sér sæti á EM.
Walesverjar fögnuðu ákaft á Írlandi í kvöld eftir að hafa í fyrsta sinn tryggt sér sæti á EM. Getty/Tim Clayton

Nú er ljóst hvaða fimmtán lið verða með Íslandi í drættinum fyrir EM kvenna í fótbolta, en dregið verður í riðla 16. desember. Sjö síðustu þjóðirnar tryggðu sér EM-farseðil í kvöld.

Á meðan að Ísland er fyrir löngu búið að tryggja sér sæti á EM í Sviss, með því að ná 2. sæti í sínum undanriðli í sumar, þá hafa margar sterkar þjóðir þurft að keppa í umspili nú í haust um síðustu lausu sætin á mótinu.

Síðustu sætin hlutu Svíþjóð, Belgía, Finnland, Noregur, Portúgal, Pólland og Wales. Tvær síðastnefndu þjóðirnar keppa í fyrsta sinn á EM.

Walesverjar tryggðu sér sæti á EM með því að slá út Íra, með 2-1 útisigri í kvöld, eftir 1-1 jafntefli í fyrri leiknum. Pólverjar sóttu einnig útisigur, 1-0 gegn Austurríki, eftir að hafa sömuleiðis unnið 1-0 á heimavelli.

Norðmenn voru öllu öruggari og unnu 3-0 gegn Norður-Írlandi í kvöld, eftir 4-0 útisigur, og sömu sögu er að segja af Svíum sem slátruðu Serbum í kvöld, 6-0, eftir að hafa unnið útileikinn 2-0.

Belgar slógu út Úkraínu, samanlagt 4-1, og Finnar unnu Skota 2-0 á heimavelli í kvöld eftir markalaust jafntefli í Skotlandi. Portúgal vann svo 2-1 útisigur gegn Tékklandi, eftir 1-1 jafntefli á heimavelli.

Ísland í næstefsta flokki

Núna er því ljóst hvernig styrkleikaflokkarnir líta út fyrir EM-dráttinn 16. desember. Mótið sjálft hefst svo 2. júlí og verður leikið í fjórum fjögurra liða riðlum, þar sem tvö efstu liðin í hverjum riðli komast áfram í 8-liða úrslit.

Flokkur 1: Sviss, Spánn, Þýskaland, Frakkland.

Flokkur 2: Ítalía, Ísland, Danmörk, England.

Flokkur 3: Holland, Svíþjóð, Noregur, Belgía.

Flokkur 4: Finnland, Pólland, Portúgal, Wales.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×