Tilbúinn í ofninn, má líka sjóða
„Þegar það kemur að hátíðarmatnum þá má ekkert klikka, því leggjum við áherslu á gæði og einfaldleika," segir Helena Marteinsdóttir, markaðsstjóri Ali.
„Með tímanum hefur eldunaraðferðin á hamborgarhryggnum aðeins breyst. Í dag eru hryggirnir orðnir saltminni og því orðið vinsælla að setja hrygginn beint í ofninn með smá vatn í ofnpotti/skúffu frekar en að sjóða hann. Það eru þó alltaf einhverjir íhaldssamir sem finnast jólin ekki koma án þess að sjóða hrygginn."

Smörrebrauð tískan leynir sér ekki í ár
Íslendingar skiptast í fylkingar hvort stokka eigi upp í jólahefðunum eða hvort hátíðarmaturinn eigi að vera eins á hverju ári. Mörgum finnst skemmtilegt að purfa sig áfram og matreiða t.d. appelsínu- eða fíkjugljáa á hamborgarhrygginn eða gera breytingar á meðlætinu.
„Við fáum mikið af skilaboðum frá ánægðum viðskiptavinum sem segja okkur frá því hvernig þeir elduðu jólamatinn í ár. Okkur þykir ótrúlega vænt um að fá þessi skilaboð," segir Helena. „Smörrebrauð tískan leynir sér ekki og við höfum verið að fá skemmtilegar myndir af því hvernig fólk nýtir afganga í að gera dönsk smörrebrauð með hamborgarhrygg. Ótrúlega girnilegt verð ég segja og ætla sjálf að gera það í ár."
Á heimasíðu Ali er kennslumyndband ásamt einfaldri uppskrift af bragðgóðum og safaríkum gljáðum hamborgarhrygg.
Svona er best að gera:
Skref 1 – Hamborgarhryggur í ofni
Stillið ofninn á 150 °C. Hellið 1 lítra af vatni í ofnskúffu eða steikarpott og setjið hrygginn á ofngrind fyrir ofan skúffuna/eða í pottinn. Komið fyrir neðarlega í ofninum. Eldið hrygginn þangað til kjarnhiti hefur náð 63-64°C. Gera má ráð fyrir 2-3 klst. í þetta ferli þar sem hitinn er ekki hár. Sjá skref 2.
Skref 1 – Soðinn Hamborgarhryggur á gamla mátann
Setjið hrygginn í pott með köldu vatni og leyfið suðunni að koma rólega upp. Þegar að suðan er komin upp er hryggurinn látinn sjóða þar til kjarnhiti hefur náð 63-64 °C. Sjá skref 2.
Skref 2 – Fulleldaður hryggur með gljáa
Smyrjið næst hrygginn með sykurgljáa og eldið hann í 180°C heitum ofni í u.þ.b. 15 mínútur eða þar til að kjarnhiti hefur náð 68°C. Gætið þess að gljáinn brenni ekki. Leyfið hryggnum að hvíla í 10 mínútur áður en hann er borinn fram.
Klassískur gljái
Hrærið saman eftirfarandi hráefnum í potti á vægum hita
300 gr. púðursykur
100 gr. tómatpúrra
100 gr. sinnep