Fótbolti

Ís­lensku stelpurnar í riðli með heimakonum á EM í Sviss

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta fagnar EM-sætinu eftir sigurinn frækna á Þýskalandi, 3-0, í sumar.
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta fagnar EM-sætinu eftir sigurinn frækna á Þýskalandi, 3-0, í sumar. vísir/anton

Ísland er í riðli með Sviss, Noregi og Finnlandi á Evrópumótinu í fótbolta kvenna 2025.

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta getur verið sátt með riðil sinn á Evrópumótinu í fótbolta sem fer fram í Sviss næsta sumar. Dregið var í riðla í Lausanne í Sviss í kvöld.

Íslensku stelpurnar voru í öðrum styrkleikflokki í drættinum og fengu eitt lið úr fyrsta, þriðja og fjórða styrkleikaflokki.

Íslenska liðið kom fyrst upp úr öðrum styrkleikaflokki og lenti þar með í riðli með heimakonum í Sviss.

Síðan bættust við Norðurlandaþjóðirnar Noregur og Finnlands. Þrjár af fimm Norðurlandaþjóðum mótsins eru því í þessum riðli en Danir og Svíar lentu síðan líka saman í riðli.

Þessi riðill Íslands lítur vel út ekki síst í samanburði við D-riðil sem er sannkallaður dauðariðill með Frakklandi, Englandi, Hollandi og Wales.

Íslensku stelpurnar spila tvo af þremur leikjum sínum í riðlakeppninni á Arena Thun leikvanginum í Thun. Liðið spilar þar leik eitt og leik þrjú en millileikurinn er á móti heimakonum í Bern. Það er stutt á milli borgann sem er gott fyrir íslenska liðið og stuðningsfólk.

  • Leikir Íslenska liðsins á EM 2025:
  • 2. júlí 2025 í Thun
  • Ísland - Finnland
  • 6. júlí 2025 í Bern
  • Ísland - Sviss
  • 10. júlí 2025 í Thun
  • Ísland - Noregur

Leikið verður í fjórum fjögurra liða riðlum á EM. Tvö efstu liðin í hverjum riðli komast áfram í átta liða úrslit.

Evrópumótið í Sviss hefst 2. júlí á næsta ári og lýkur með úrslitaleik á St. Jakob-Park í Basel 27. júlí. Einnig verður leikið í Bern, Genf, Zürich, St. Gallen, Luzern, Sion og Thun á EM.

Ísland er á leið á sitt fimmta Evrópumót í röð. Íslenska liðið lék einnig á EM 2009, 2013, 2017 og 2022.

  • Riðlarnir á EM kvenna í fótbolta 2025:
  • Riðill A
  • Sviss
  • Noregur
  • Ísland
  • Finnland
  • Riðill B
  • Spánn
  • Portúgal
  • Belgía
  • Ítalía
  • Riðill C
  • Þýskaland
  • Pólland
  • Danmörk
  • Svíþjóð
  • Riðill D
  • Frakkland
  • England
  • Wales
  • Holland

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira
×