Fótbolti

Norð­menn sáttir með riðilinn á EM: Draumadráttur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrine Hegerberg er mjög ánægð með riðil norska landsliðsins á EM í Sviss næsta sumar.
Andrine Hegerberg er mjög ánægð með riðil norska landsliðsins á EM í Sviss næsta sumar. Getty/Bryn Lennon

Norðmenn eru mjög ánægðir með riðil sinn á Evrópumótinu í Sviss en norska kvennalandsliðið lenti í riðli með Íslandi þegar dregið var í kvöld.

Ísland og Noregur glöddust yfir því að fá Sviss úr fyrsta styrkleikaflokki en Norðmenn eru á því að þeir hafi einnig haft heppnina með sér að fá síðan Ísland úr öðrum styrkleikafloki.

Auk Sviss og Noregs þá er Finnland líka í riðli með Íslandi en íslensku stelpurnar mæta Finnum i fyrsta leiknum sínum á mótinu.

Norsku sérfræðingarnir í útsendingu NRK voru líka himinlifandi með dráttinn.

„Þetta gæti varla verið betra fyrir norska liðið. Frábært tækifæri fyrir norska liðið til að fara lengra í keppninni,“ sagði Carl-Erik Torp.

„Þetta er draumadráttur,“ sagði Andrine Hegerberg en NRK segir frá.

Norðmenn mæta Sviss í opnunarleik mótsins en sá leikur fer fram 2 júlí. Sama dag mætir íslenska liðið Finnlandi í sínum fyrsta leik. Hinir leikir Íslands eru síðan 6. júlí á móti Sviss og 10. júlí á móti Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×