Fótbolti

Lamine Yamal aftur meiddur og nú frá í margar vikur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lamine Yamal liggur hér sárþjáður í grasinu eftir að hann meiddist á ökkla í tapleik Barcelona á móti Leganes um helgina.
Lamine Yamal liggur hér sárþjáður í grasinu eftir að hann meiddist á ökkla í tapleik Barcelona á móti Leganes um helgina. Getty/Pedro Salado

Lamine Yamal hefur verið óheppinn með meiðsli á þessu tímabili og er nú enn á ný kominn á meiðslalistann.

Hinn sautján ára gamli Yamal meiddist á ökkla í tapinu á móti Leganés í gær.

Hann fór af velli eftir 75 mínútur. Hann meiddist samt í fyrri hálfleik og bað þá um skiptingu. Yamal var samt ekki tekinn af velli og spilaði í hálftíma til viðbótar.

Hann verður nú frá í þrjár til fjórar vikur vegna meiðslanna. Barcelona sagði það vera niðurstöðuna eftir nákvæma rannsókn á alvarleika þeirra.

Tapleikurinn á móti Leganés varð fyrir vikið enn verri því hann kostaði Barcelona liðið líka einn sinn besta leikmann.

Ökklinn hjá Yamal var líka til vandræða í byrjun nóvember og hann missti þá af þremur leikjum Barcelona og tveimur leikjum spænska landsliðsins.

Yamal missir því af stórleiknum á móti Atlético Madrid um næstu helgi en þar mætast tvö efstu lið deildarinnar.

Það kemur sér vel að spænska deildin er á leiðinni í jólafrí eftir leikina um næstu helgi og fyrsti leikur á nýju ári er síðan á móti D-deildarliði Barbastro í bikarnum 4. janúar.

Barcelona ferðast síðan til Sádí-Arabíu til að taka þátt í spænska Ofurbikarnum en það er ólíklegt að hann verði með í þeim tveimur leikjum.

Hann gæti aftur á móti náð deildarleik á móti Getafe 18. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×